Um KMÍ
Á döfinni

23.11.2021

Dýrið tilnefnd til til Arab Critics verðlaunanna

Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson er á meðal fjögurra evrópskra kvikmynda sem munu keppa um Arab Critics verðlaunin. European Film Promotion (EFP) og Arab Cinema Center (ACC) standa fyrir verðlaununum en alls voru 26 kvikmyndir tilnefndar af kvikmyndastofnunum í Evrópu. Verðlaunaafhendingin mun fara fram á Alþjóðlegu Kvikmyndahátíðinni í Kaíró þann 1. desember næstkomandi.

European Film Promotion eru samtök evrópskra kvikmyndastofnana og Kvikmyndamiðstöð Íslands er aðili að samtökunum. EFP leggur áherslu á að kynna og markaðssetja evrópskar kvikmyndir og listamenn um heim allan. 

Dýrið trailer

Dýrið segir frá sauðfjárbændunum Maríu og Ingvari sem búa í fögrum en afskekktum dal. Þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund, hamingju sem verður þeim síðar að tortímingu.

Valdimar Jóhannsson leikstýrði myndinni og handritið skrifaði hann í samvinnu við Sjón. Myndin er framleidd af Hrönn Kristinsdóttur og Söru Nassim fyrir Go to Sheep, í samvinnu við sænska og pólska framleiðendur.

Sölufyrirtæki myndarinnar á alþjóðavísu er New Europe Film Sales og Sena sér um sölu og dreifingu hér á landi.