Um KMÍ
Á döfinni

17.11.2021

Dýrið vinnur til verðlauna fyrir tæknibrellur á Evrópsku kvikmyndaverðlaunum

Evrópska kvikmyndaakademían hefur tilkynnt um vinningshafa Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í átta flokkum. Þar unnu Peter Hjorth og Fredrik Nord til verðlauna fyrir tæknibrellur. Peter og Fredrik sáu um tæknibrellur fyrir kvikmyndina Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson. Dýrið er einnig tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í flokki European Discovery 2021 - Prix FIPRESCI, en verðlaunin eru veitt árlega til leikstjóra með sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Verðlaunaafhending Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna mun fara fram í Berlín þann 11. desember næstkomandi þar sem vinningshafar eru heiðraðir.

Dýrið var heimsfrumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni og hlaut þar verðlaun sem frumlegasta kvikmyndin í Un Certain Regard keppninni. Að auki er kvikmyndin framlag Íslands til Óskarsverðlauna fyrir árið 2022.

Dýrið trailer

Myndin segir frá sauðfjárbændunum Maríu og Ingvari sem búa í fögrum en afskekktum dal. Þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund, hamingju sem verður þeim síðar að tortímingu.

Valdimar Jóhannsson leikstýrði myndinni og handritið skrifaði hann í samvinnu við Sjón. Myndin er framleidd af Hrönn Kristinsdóttur og Söru Nassim fyrir Go to Sheep, í samvinnu við sænska og pólska framleiðendur.

Sölufyrirtæki myndarinnar á alþjóðavísu er New Europe Film Sales og Sena sér um sölu og dreifingu hér á landi.