Elín Hall verðlaunuð í Chicago
Elín Hall var valin besta leikkonan á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson. Þetta er í 60. sinn sem hátíðin er haldin og var tilkynnt um verðlaunin við lokaathöfn hennar. Þetta eru áttundu alþjóðlegu verðlaunin sem myndin hlýtur.
Elín var hrærð yfir heiðrinum og þakkaði fjölda fólks sem hefur stutt hana í gegnum tíma. Sér í lagi þakkaði hún samleikurum sínum í Ljósbroti fyrir og undirstrikaði að verðlaunin væru viðurkenning á góðu samstarfi þeirra.
Framleiðandi Ljósbrots, Heather Millard, segir Elínu vel að verðlaununum komin. „Elín á þessi verðlaun fullkomlega skilið og satt best að segja kemur þetta ekkert á óvart,“ segir hún. „Við höfum verið að ferðast á milli landa að undanförnu og sama hvert við komum þá eru áhorfendur, sem og gagnrýnendur, dolfallnir yfir frammistöðu hennar. Chicago er sterk hátíð og hafði kvikmyndir með frábærar leikkonur, á borð við Tildu Swinton, í aðalhlutverkum. Við erum einkar stolt af Elínu og af öllum þeim frábæra hóp sem komu að og gerðu þessa mynd að veruleika”