Um KMÍ
Á döfinni

4.7.2023

Eva María Daníels látin

Eva María Daniels, kvikmyndaframleiðandi og ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands, er látin, 43 ára að aldri.

Eva María fæddist í júlí 1979. Hún lærði viðskiptafræði og heimspeki við Háskóla Íslands og lauk námi í kvikmyndagerð frá KBH Film & Fotoskole í Kaupmannahöfn árið 2003.

Fljótlega að námi loknu flutti hún til London, þar sem hún starfaði við eftirvinnslu kvikmynda hjá The Mill. Árið 2007 flutti hún til Bandaríkjanna, þar sem hún starfaði sem stjórnandi hjá framleiðslufyrirtækinu Company 3, en árið 2010 stofnaði hún eigið framleiðslufyrirtæki í New York.

Eva María hafði það ávallt að leiðarljósi að skapa þýðingarmiklar kvikmyndir sem hreyfðu við fólki og undir eigin merki, Eva Daniels Productions, framleiddi hún níu kvikmyndir í fullri lengd. Þar á meðal What Maisie Knew, með Julianne Moore og Alexander Skarsgård í aðalhlutverkum, og End of Sentence, kvikmynd í leikstjórn Elfars Aðalsteins með John Hawkes og Logan Lerman í aðalhlutverkum.

Frá febrúar 2022 starfaði Eva María sem kvikmyndaráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Samstarfsfólk hennar vottar fjölskyldu og ástvinum samúð sína.