Um KMÍ
Á döfinni

21.12.2022

Kastljós kvikmyndaheimsins á Íslandi á verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaakademíunnar

Verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2022 fór fram í Hörpu 10. desember. Þetta er einn stærsti viðburður af þessari tegund sem fram hefur farið á Íslandi og kallaði á víðtækt samstarf íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar við Evrópsku kvikmyndaakademíuna.

Hátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu. Upphaflega átti hún að fara fram á Íslandi 2020 en vegna heimsfaraldursins var ákveðið að hún yrði þess í stað árið 2022 hér á landi.

Kvikmyndamiðstöð Íslands stóð fyrir ýmsum tengsla- og kynningarviðburðum, í samstarfi við kvikmyndagreinina, sem voru hluti af dagskrá verðlaunahátíðarinnar. Hliðarviðburðir voru vel metnir og sóttir af erlendum gestum og til þess fallnir að treysta enn betur umgjörð samstarfs evrópska kvikmyndabransans og stofnana.

Hátt í eitt þúsund manns ferðuðust til landsins til að taka þátt í hátíðinni, þar á meðal margir heimsþekktir leikstjórar og leikarar og um eitt hundrað erlendir blaðamenn. Til landsins komu einnig 30 framleiðendur frá 15 löndum til að taka þátt í pallborði European Film Promotion og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Reykjavík baðaði sig því í kastljósi kvikmyndaheimsins í desembermyrkrinu og var þetta einstaka tækifæri nýtt til að kynna íslenska kvikmyndagerð, bæði gagnvart blaðamönnum, dreifingaraðilum og evrópskum meðframleiðendum.

Tilnefningar til verðlaunanna voru kynntar með myndskeiði, sem unnið var í samstarfi Evrópsku kvikmyndaakademíunnar og Íslandsstofu.

https://www.youtube.com/watch?v=frsh-OGBVjQ

Íslenski leikstjórinn Arnar Helgi Atlondres leikstýrði myndskeiðinu. Íslenskt kvikmyndagerðarfólk kynnti tilnefningarnar, má þar nefna Baltasar Kormák, Halldóru Geirharðsdóttur og Benedikt Erlingsson, undir tónlist eftir Atla Örvarsson.

Áður hafði Evrópska kvikmyndaakademían, í byrjun október, heiðrað Kaffibarinn sem dýrmætan tökustað í evrópskri kvikmyndasögu. Íslandsstofa stóð að viðburði, ásamt Evrópsku kvikmyndaakademíunni, þar sem Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, veittu aðstandendum kvikmyndarinnar ásamt fulltrúum Kaffibarsins verðlaunaskjöld.

Í Bíó Paradís var evrópskri kvikmyndagerð hampað í heilan mánuð, þar sem meðal annars voru sýndar allar kvikmyndirnar sem tilnefndar voru sem besta kvikmyndin. 

Í aðdraganda verðlaunahátíðarinnar var kvikmyndahúsið einnig miðstöð fyrir gesti hátíðarinna og blaðamenn, frá 43 löndum, sem sóttu landið heim, og þar stóð Kvikmyndamiðstöð Íslands fyrir kynningu á íslenskum kvikmyndaverkum og sjónvarpsþáttum í vinnslu í þéttsetnum sal.

Áður höfðu verðlaun ungra áhorfenda (Young Audience Award), sem Evrópska akademían stendur fyrir, farið fram í þremur bæjum á Íslandi; í Reykjavík, á Ísafirði og á Sauðárkróki. Átta skólar tóku þátt, þar á meðal Melaskóli, og heimsóttu meðlimir ungmennaráðs European Film Awards skólann föstudaginn 9. desember og ræddu við krakkana sem tóku þátt í dómnefndarstörfum um sigurmyndina, Animal, og sjálfbærni. Með í för var kvikmyndatökuteymi frá EFA en það stendur til að gera myndband um heimsóknina.

Verðlaunaafhendingin fór fram í Eldborgarsal Hörpu og sýnd í beinni útsendingu í 24 löndum, þar á meðal á RÚV. Unnsteinn Manuel Stefánsson var listrænn stjórnandi og rauða dregilinn og aðkomuna í Hörpu hönnuðu og listamennirnir Tanja Levý, Sean O'Brien og Lilý Erla Adamsdóttir. Ilmur Kristjánsdóttir og Hugleikur Dagsson voru kynnar kvöldsins og á meðal gestakynna var íslenskt kvikmyndagerðarfólk.

Sigurvegari kvöldsins var kvikmynd Rubens Östlunds, Triangle of Sadness, sem hreppti fern helstu verðlaun kvöldsins, þar á meðal sem besta myndin. Íslenska kvikmyndin Leynilögga eftir Hannes Þór Halldórsson var ein þriggja gamanmynda sem tilnefndar voru til verðlauna, en verðlaunin féllu í skaut Fernando Léon de Aranoa fyrir kvikmyndina El buen patrón. Danski leikarinn Elliott Crosset Hove var svo tilnefndur sem besti evrópski leikarinn, fyrir leik sinn í kvikmyndinni Volaða land, eftir íslenska leikstjórann Hlyn Pálmason.