Um KMÍ
Á döfinni

9.12.2022

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin afhent í Reykjavík

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða afhent í Hörpu á laugardag, 10. desember. Verðlaunahátíðin fer fram annað hvert ár við hátíðlega athöfn í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu. Er þetta í fyrsta sinn sem hún fer fram á Íslandi.

Markmiðið er að miðla þekkingu og fræða áhorfendur á öllum aldri um evrópska kvikmyndagerð. Verðlaunin eru þau þekktustu og virtustu í evrópskri kvikmyndagerð og verða þau í beinni útsendingu á RÚV.

Um 700 erlendir gestir og 100 blaðamenn, frá 43 löndum, sækja landið heim af því tilefni, þar af fjöldi þekktra leikstjóra og leikara. Blaðamenn verða kynntir fyrir íslenskum kvikmyndum og kvikmyndageira og til landsins koma einnig 30 framleiðendur frá 15 löndum til að taka þátt í pallborði EuropeanFilm Promotion og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands .

Íslenska kvikmyndin Leynilögga, í leikstjórn Hannesar Þórs Halldórssonar, er tilnefnd í flokki gamanmynda og danski leikarinn Elliott Crosset Hove, sem fer með aðalhlutverk í kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða landi, er tilnefndur sem besti leikarinn.

Frekari upplýsingar um verðlaunahátíðina má finna á vef Evrópsku akademíunnar .