Fár á yfir 130 alþjóðlegum kvikmyndahátíðum — fyrsta íslenska stuttmyndin á Disney+
Íslenska stuttmyndin Fár hefur náð eftirtektarverðum árangri á alþjóðlegum vettvangi og er nú orðin fyrsta íslenska myndin sem er aðgengileg á Disney+.
Myndin var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2023, þar sem hún keppti um Gullpálmann í stuttmyndaflokki hátíðarinnar og hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar. Síðan þá hefur Fár ferðast víða og verið sýnd á yfir 130 kvikmyndahátíðum um allan heim.
Fár vakti einnig athygli á Toronto International Film Festival og var valin sem ein af opnunarmyndum Nordisk Panorama. Hún hefur hlotið einróma lof fyrir áhrifamikla frásögn og blæbrigðaríkan leik, sem skapar dýpt og tengsl við áhorfendur.
„Það er óskaplega mikið gleðiefni að geta deilt myndinni á þennan aðgengilega hátt með fólki, sem og mikill heiður fyrir allt það frábæra úrvalsfólk sem kom að gerð hennar,“ segir Gunnur Martinsdóttir Schlüter, höfundur og leikstjóri myndarinnar.
Í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar segir að tímamótin undirstriki vaxandi vægi íslenskra kvikmynda á alþjóðavettvangi, „þar sem áhorfendur um allan heim fá nú tækifæri til að upplifa þessa einstöku mynd heima í stofu.“
Gunnur Martinsdóttir Schlüter leikstýrir myndinni, skrifar handrit hennar og fer að auki með aðalhlutverkið. Fár er framleidd af Rúnari Inga Einarssyni og Söru Nassim fyrir framleiðslufyrirtækið Norður.