Um KMÍ
Á döfinni

14.8.2025

Fimm íslensk kvikmyndaverk keppa um verðlaun á Nordisk Panorama 2025

Nordisk Panorama fer fram í Malmö í Svíþjóð 18.-23. september. Fimm íslenskar stutt- og heimildamyndir verða sýndar á hátíðinni í ár, auk þess sem fjögur verkefni verða kynnt á Forum-hluta hátíðarinnar. Þetta er í 36. sinn sem Nordisk Panorama fer fram. Hátíðin er ein helsta hátíð sinnar tegundar á Norðurlöndum og sýnir eingöngu myndir eftir norræna kvikmyndagerðarmenn.

Jörðin undir fótum okkar, nýjasta mynd Yrsu Roca Fannberg, er tilnefnd sem besta norræna heimildamyndin. Framleiðandi myndarinnar er Hanna Björk Valsdóttir, sem einnig er tilnefnd til framleiðendaverðlauna hátíðarinnar, Nordic Documentary Producer Award.

O (hringur), eftir Rúnar Rúnarsson, og Sara, eftir Steiní Kristinsson, eru tilnefndar sem bestu norrænu stuttmyndirnar.

Í flokknunum New Nordic Voice er stuttmyndin Duld, í leikstjórn Önnulísu Hermannsdóttur tilnefnd og stuttmynd Rúnars Inga Einarssonar, Merki, er tilnefnd í flokkinum Young Nordic Award.

Nordisk Panorama Forum

Á Forum-hluta hátíðarinnar gefst kvikmyndagerðarfólki tækifæri til að kynna hugmyndir fyrir fjölbreyttum hópi áhrifafólks, frá sjónvarpsstöðvum, kvikmyndastofnunum og kvikmyndasjóðum, með það fyrir augum að tryggja verkefnum fjármagn.

Íslensku verkefnin sem kynnt verða þar eru Trapped in Ice, eftir Alexia Muinos Ruiz og Leu Ævars, Ukulellur, eftir Elísabetu Thoroddsen, LÝRIKK, eftir Hauk M. Hrafnsson og Ástu Júlíu Guðjónsdóttur, og ISLANDER, eftir Nikolai Galitzine.

Nordic Short Film Pitch

Á markaðshluta hátíðarinnar verða stuttmyndaverkefnin Eðli vatnsins er hringur, í leikstjórn Þóru Hilmarsdóttur, og Dýri, í leikstjórn Ara Allanssonar, kynnt undir merkjum Nordic Short Film Pitch.

Markmiðið með Nordic Short Film Pitch er að tengja Norræna stuttmyndagerðarmenn saman og að gera þeim kleift að styrkja tengslanet sitt og auka möguleika á frekara samstarfi og samframleiðslu.