Fjárheimildir vegna endurgreiðslna kláraðar
Nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar vekur sérstaka athygli umsækjenda á því að fjárheimildir menningar- og viðskiptaráðuneytisins í fjárlögum ársins 2024 vegna endurgreiðslna hafa verið kláraðar. Verður nefndin því, vegna þeirra umsókna um útborgun endurgreiðslu sem afgreiddar verða á næstu misserum, að nýta heimild í 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 450/2017 og fresta útborgun yfir á næsta fjárlagaár, eða eftir atvikum þar til frekari fjárveitingar hafa verið samþykktar.
Til upplýsinga má geta þess að þingmálaskrá Alþingis mun ekki liggja fyrir fyrr en þingið kemur næst saman og því ekki enn ljóst hvort frumvarp til fjáraukalaga vegna ársins 2024 verði lagt fram á haustmánuðum og enn síður hvers efnis það verður. Ekki er því fyrirsjáanlegt hvort frekari fjárheimildir verði samþykktar á árinu 2024.
Nefndin mun á næstu misserum afgreiða framkomnar umsóknir efnislega með reglubundnum hætti og eftir atvikum óska eftir frekari skýringum eða gögnum frá umsækjendum í tengslum við slíka afgreiðslu. Greiðslum verður hins vegar að fresta, eins og áður segir, þar til frekari fjárheimildir liggja fyrir.