Um KMÍ
Á döfinni
  • Draken_GFF_logotype_srgb

12.1.2016

Fjöldi íslenskra kvikmynda sýndar á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg – Þrestir og The Show of Shows í keppni

Fjöldi íslenskra kvikmynda verða sýndar á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg, sem mun fara fram frá 29. janúar til 8. febrúar. Gautaborgarhátíðin er nú haldin í 39. sinn og er stærsta kvikmyndahátíð norðurlanda. Myndirnar sem um ræðir eru átta talsins; kvikmyndirnar ÞrestirHrútar og Fyrir framan annað fólk, heimildamyndirnar The Show of ShowsGarn og Sjóndeildarhringur, stuttmyndinRegnbogapartý og sjónvarpsþáttaröðin Ófærð.

Þrestireftir Rúnar Rúnarsson mun taka þátt í keppninni um Drekaverðlaunin (Dragon Award) fyrir bestu norrænu kvikmynd. Hún er ein af 8 norrænum myndum sem keppa um þessi eftirsóttu verðlaun, en verðlaunaféð er 1 milljón sænskra króna og er það ein hæsta upphæð sem hægt er að vinna til á kvikmyndahátíðum heimsins.

The Show of Shows: 100 Years of Vaudeville, Circuses and Carnivals undir leikstjórn Benedikts Erlingssonar mun taka þátt í keppninni um Drekaverðlaunin fyrir bestu norrænu heimildamynd. Samtals munu 8 norrænar heimildamyndir keppa um 100.000 sænskar krónur, sem er ein hæsta upphæð sem hægt er að vinna til í flokki heimildamynda á kvikmyndahátíðum heimsins.

Hrútar eftir Grím Hákonarson og Fyrir framan annað fólk undir leikstjórn Óskars Jónassonar munu taka þátt í Nordic Light sýningarröð hátíðarinnar.

Garn undir leikstjórn Unu Lorenzen og Sjóndeildarhringur eftir Berg Bernburg og Friðrik Þór Friðriksson munu taka þátt í heimildamyndahluta Nordic Light sýningarraðarinnar.

Regnbogapartýeftir Evu Sigurðardóttur mun taka þátt í stuttmyndahluta Nordic Light sýningarraðarinnar.

Síðast en ekki síst verða tveir fyrstu þættir sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærð, úr smiðju Baltasar Kormáks og Sigurjóns Kjartanssonar, sýndir sem hluti af sjónvarpsþáttahluta Nordic Light sýningarraðarinnar.

Þess má geta að á hátíðinn í fyrra voru Þrestir og Hrútar kynntar á sérstökum kynningarvettvangi sem fer fram ár hvert og kallast einfaldlega „Works in progress“. Einnig varÓfærð kynnt á hátíðinni í fyrra, á „TV Drama Vision“ kynningarvettvanginum.

Allar nánari upplýsingar um hátíðina og valið er að finna á heimasíðu hátíðarinnar.