Um KMÍ
Á döfinni

19.8.2024

Fjöldi íslenskra stutt- og heimildamynda sýndar á Nordisk Panorama

Nordisk Panorama fer fram í Malmö í Svíþjóð 19.-24. september. Sjö íslenskar stutt- og heimildamyndir verða sýndar á hátíðinni í ár, auk þess sem fimm verkefni verða kynnt á Nordisk Panorama Forum og Nordic Short Film Pitch. Nordisk Panorama er helsta hátíð sinnar tegundar á Norðurlöndum og sýnir eingöngu myndir eftir norræna kvikmyndagerðarmenn.

Þrjár íslenskar myndir eru í keppni um bestu norrænu heimildamyndina. Það eru Belonging eftir Kreshnik Jonuzi og Sævar Guðmundsson, Dagurinn sem Ísland stöðvaðist eftir Pamelu Hogan, og Göngin eftir Björgvin Sigurðarson og Hall Örn Árnason. Alls eru fimmtán norrænar heimildamyndir í keppni og verðlaunaféð er 11.000€.

Í keppni um bestu norrænu stuttmyndina eru Brot af atvikinu eftir Steiní Kristinsson og Allt um kring eftir Birnu Ketilsdóttur Schram. Nítján norrænar stuttmyndir taka þátt og er verðlaunaféð 5.000€.

Í flokknum Nýjar norrænar raddir, þar sem efnilegir kvikmyndagerðarmenn eru kynntir til leiks, verður stuttmynd Ísaks Hinrikssonar, Sjoppa, sýnd. Fimmtán myndir eru sýndar í flokknum og verðlaunaféð er 5.000€.

Þá verður stuttmynd Guðna Líndal Benediktssonar, Þið kannist við..., sýnd í flokknum Ung norræn, þar sem yngstu áhorfendurnir sjá um að velja sigurmyndina úr þeim 9 sem taka þátt. Verðlaunaféð er 1.500€.

Fjögur íslensk verkefni taka þátt í Forum-hluta hátíðarinnar, þar sem kvikmyndagerðarfólki býðst tækifæri til að kynna verkefni sín fyrir erlendum framleiðslufyrirtækjum, sjóðum, sjónvarpsstöðvum, streymisveitum, dreifingaraðilum og kvikmyndahátíðum. Það eru heimildamyndirnar Meðal fugla, eftir Mikas Kaurismaki og RAX, Miðgarðakirkja eftir Nikolai Galitzine og Lukas eftir Magnús Leifsson. Tvö íslensk verkefni verða kynnt í Nordic Short Film Pitch, 84% eftir Telmu Huld Jóhannesdóttur og Skorradalur eftir Álfheiði Mörtu Kjartansdóttur.