Fjöldi nýrra heimildamynda á IceDocs 19. - 23. júlí
Nýjar alþjóðlegar heimildarmyndir verða sýndar á heimildarmyndahátíðinni IceDocs á Akranesi dagana 19. - 23. júlí. Í ár verður IceDocs haldin samhliða hátíð Hinsegin Vesturlands sem stendur meðal annars fyrir gleðigöngu á laugardeginum fyrir alla fjölskylduna. Þá verða sérsýningar og viðburðir einnig á vegum hátíðannar.
Dagskrá IceDocs er að finna á vef hátíðarinnar og er miðasala hafin.
Samhliða hátíðinni fer fram vinnustofa á vegum SKL (Samtaka kvikmyndaleikstjóra). Yrsa Roca Fannberg er verkefnastjóri vinnustofunnar þar sem fimm íslensk verkefni í vinnslu verða þróuð frekar undir leiðsögn Mörtu Andreu frá Eurodocs.
Eliza Reid forsetafrú opnar hátíðina 19. júlí. Opnunarmyndin er Boylesque eftir pólska leikstjórann Bogna Kowalczyk, sem hlaut verðlaun fyrir myndina á HotDocs Canadian International Film Festival á árinu.
Íslenska heimildamyndin Skuld eftir Rut Sigurðardóttur verður einnig sýnd á hátíðinni en hún fjallar um ungt par sem hættir skuldastöðu sinni og sambandi er þau feta í fótspor forfeðra sinna og gera út trilluna Skuld á handfæraveiðum.
Einnig má nefna kvikmyndina Innocence eftir Guy Davidi, sem tilnefndur var til Óskarsverðlauna árið 2014, en myndin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda á árinu.
Fjöldi erlendra leikstjóra verða viðstaddir hátíðina og boðið verður upp á spurt og svarað eftir valdar sýningar. Auk sýninga á heimildamyndum fara fram ýmsir viðburðir, meðal annars tónleikar með Unu Torfadóttur, ljósmyndasýning Gunnlaðar Jónu Rúnarsdóttur, barsvar, tónlistarbingó og DJ Flugvél og geimskip leikur tónlist yfir mynd frá Azoreyjum. Einnig verða haldnir bransadagar fyrir kvikmyndagerðarfólk og námskeið fyrir börn í heimildamyndagerð.