Um KMÍ
Á döfinni

23.5.2023

Fjöldi sérviðburða á Skjaldborgarhátíð um hvítasunnuhelgina

Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, fer fram um hvítasunnuhelgina 26.-29. maí. Auk sautján nýrra íslenskra heimildamynda sem sýndar verða á hátíðinni fer þar fram fjöldi sérviðburða.

Pallborð um framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar fer fram á hátíðinni með fulltrúum frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, RÚV og íslenskri heimildamyndagerð.

Kvikmyndasafn Íslands stendur fyrir sýningu á nýrri stafrænni endurgerð af heimildamyndinni Bóndi eftir Þorstein Jónsson um Guðmund Ásgeirsson, bónda í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp, sem hafði búið án rafmagns, véla eða vegasambands. Þorsteinn, sem var heiðursgestur á fyrstu hátíð Skjaldborgar árið 2007, verður viðstaddur sýninguna. Þorsteinn vinnur með Kvikmyndasafni Íslands um þessar mundir við að skrásetja og ganga frá ævistarfinu sínu sem spannar nokkra áratugi.

Þorsteinn Jónsson

Heimildamyndir sem krakkar í 5.-7. bekk gerðu á Skjaldbökunámskeiðum á Patreksfirði, Seyðisfirði og í Reykjavík verða sýndar á hátíðinni. Karna Sigurðardóttir, einn verkefnastjóra Skjaldborgar, segir frá hugmyndafræðinni á bak við námskeiðin.

Heiðursgestir hátíðarinnar í ár eru Corinne van Egeraat og Petr Lom, heimildamyndahöfundar og framleiðendur ZINdoc. Mannréttindi og tjáningarfrelsi eru þeirra helsta viðfangsefni og dæmi um það er
Myanmar Diaries sem kom út 2022 og hefur unnið til fjölda verðlauna. Eftir myndina verður leikstjóraspjall við heiðursgestina tvo í umsjón Kristjáns Loðmfjörð, klippara og leikstjóra.

HEIDURSGESTIR-LR-Corinne-Petr-01-3

Af nógu öðru er að taka, svo sem sviðsverk eftir Friðgeir Einarsson, blessbless.is Hentu – hirtu minninguna, þar sem hann hjálpar áhorfendum að einfalda líf sitt, og plokkfisksveisla í boði kvenfélagsins Sifjar og Odda og kórsins Veirunnar.

Hægt er að kynna sér dagskrána betur á vef Skjaldborgar .