Um KMÍ
Á döfinni

16.6.2022

Frumvarp um hækkun endurgreiðslu samþykkt á þingi

Alþingi hefur samþykkt frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um hækkun á hlutfalli tímabundinna endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Nýju lögin fela í sér að stærri verkefni, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, eigi rétt á 35% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði sem fellur til við kvikmyndagerð hérlendis. Skilyrðin snúa að lágmarks framleiðslukostnaði, fjölda tökudaga og fjölda starfsmanna sem vinna að verkefni. Fyrir önnur verkefni verður hlutfallið áfram 25%.

„Þetta frumvarp þýðir það að kvikmyndagerð á Íslandi er orðin samkeppnishæf aftur, þegar við berum okkur saman við önnur ríki. Ríkisstjórnin stefnir að því að fjölga störfum í skapandi greinum og er þetta risastór aðgerð í þeirri vegferð,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir að lokinni atkvæðagreiðslu 15. júní.