Um KMÍ
Á döfinni

2.6.2022

Grænni og fjölskylduvænni kvikmyndagerð

Í kvikmyndastefnu til 2030 eru sett fram markmið um að kvikmyndagerð verði sjálfbærari og starfsumhverfi greinarinnar sveigjanlegra og fjölskylduvænna. Til þess að vinna að þeim markmiðum hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands gefið út tilmæli um að með umsóknum um framleiðslustyrki fylgi yfirlýsing framleiðslufyrirtækja um sjálfbærnimarkmið og starfsumhverfi.

Græn kvikmyndaframleiðsla

Með umsókn um framleiðslustyrk verða þau áform tiltekin sem framleiðslufyrirtæki ætlar að viðhafa til að vinna að sjálfbærni, kolefnishlutleysi og orkusparnaði í einstökum framleiðsluþáttum eða vinnuslustigum framleiðslunnar. 

Gert er ráð fyrir að yfirlýsing um sjálfbærnimarkmið taki mið af umfangi og flækjustigi verkefnisins, þannig getur verið að fyrir fremur einfalda framleiðslu með takmarkað umfang þurfi fremur einfalda yfirlýsingum um hvernig unnið verði að sjálfbærnimarkmiðum.

Til leiðbeiningar má nefna að sjálfbærni í kvikmyndaframleiðslu er oft skipt í eftirfarandi áherslusvið sem geta mótað ráðstafanir fyrir starfsþætti framleiðslunnar:

  • Samgöngur og flutningar.
  • Val á efniviði og búnaði.
  • Orkugjafar og orkunotkun.
  • Veitingar og kostur.
  • Meðferð og ráðstöfun sorps.

Útfyllt form með yfirlýsingu um sjálfbærnimarkmið verður hluti umsóknargagna, þar sem vönduð framsetning með vel útfærðum markmiðum sem stuðla að sjálfbærni framleiðslunnar, verður metin umsókn til framdráttar.

Á vef Kvikmyndamiðstöðvar er hægt að kynna sér græna kvikmyndagerð, þar er meðal annars hægt að nálgast handbók um málefnið .

Fjölskylduvæn kvikmyndagerð

Kvikmyndamiðstöð vill að auki stuðla að því að starfsumhverfi kvikmyndagerðar verði í senn faglegt, sveigjanlegt og fjölskylduvænt. Þar er meðal annars vísað til vinnutíma, fyrirkomulags öryggismála, viðbragðsáætlana um áreitis- eða ofbeldismála og nándarþjálfunar ef við á.

Með umsókn um framleiðslustyrk er ætlast til að þau áform sem framleiðslufyrirtæki viðhefur til að stuðla að bættu starfsumhverfi framleiðslunnar séu tiltekin í yfirlýsingu um starfsumhverfi framleiðslunnar.