Um KMÍ
Á döfinni

24.6.2022

Hækkun endurgreiðsluhlutfalls fyrir verkefni sem uppfylla skilyrði

Breytingar hafa verið samþykktar á endurgreiðslukerfi kvikmynda þar sem endurgreiðsluhlutfall verkefna hækkar upp í 35% fyrir verkefni sem uppfylla þrjú skilyrði.

Skilyrðin til að njóta 35% endurgreiðslu eru:

  • Að kostnaður sem fellur til hér á landi við framleiðsluna sé að lágmarki 350 milljónir króna.
  • Að tökudagar vegna verkefnisins (e. principal photography) séu að lágmarki 30, þó þannig að heimilt sé að telja daga við eftirvinnslu (e. post production) inni í þeim dagafjölda. Samtala heilla starfsdaga við tökur og eftirvinnslu skulu því samtals vera að lágmarki 30, þó þannig að tökudagar verði ekki færri en 10.
  • Að fjöldi starfsmanna þeirra sem komi með beinum hætti að framleiðslunni hérlendis verði að lágmarki 50. Þar er miðað við heilan starfsdag hvers þeirra 50 sem til eru nefndir og heimilt er að telja bæði launþega og verktaka við framleiðsluna. Við talningu á heilum starfsdegi er vísað til 8 stunda vinnudags, og því er heimilt að telja 50 starfsdaga sem vinnuframlag fleiri einstaklinga, þó hver þeirra vinni skemmri tíma. 50 starfsdagar í þessu samhengi eru því ígildi 400 vinnustunda, sem fleiri en 50 geta unnið. Lágmarksfjöldi þeirra sem vinna beint að verkefninu verður þó að vera 50 á einhverjum tímapunkti á framleiðslutíma þess, þar sem vísað er til aðaltöku- eða eftirvinnslutímabils framleiðslunnar.

Þær reglur sem gilda um umsóknir um tímabundnar endurgreiðslur skv. lögum nr. 43/1999 eru að öðru leyti óbreyttar. Eftir sem áður þarf að sækja um endurgreiðslur áður en tökur hefjast hér á landi og gera grein fyrir hvort verkefni uppfylli almennar kröfur. Eftir þessa lagabreytingu verður óskað frekari umsóknargagna um hvort verkefni sem sótt er um endurgreiðslu fyrir uppfylli þau skilyrði sem sett eru. Uppfylli verkefni þau skilyrði að mati nefndar um endurgreiðslu, skv. framlögðum umsóknargögnum, er heimilt að gefa út vilyrði fyrir 35% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði, þó með þeim fyrirvara að unnt verði að sannreyna að skilyrði laganna hafi verið uppfyllt við skil uppgjörsgagna og umsókn um útborgun.