Um KMÍ
Á döfinni

31.5.2022

Hálfur Álfur hlýtur verðlaun fyrir kvikmyndatöku

Jón Bjarki Magnússon hlaut verðlaun fyrir kvikmyndatöku í heimildamyndinni Hálfur Álfur, á German International Ethnographic Film Festival, GIEFF, sem fram fór í þýsku borginni Göttingen dagana 25. - 30. maí.

Þetta var í sextánda sinn sem hátíðin var haldin, en hún fer fram á tveggja ára fresti og er á meðal þeirra virtustu í Evrópu á sviði etnógrafískra heimildarmynda og sjónrænnar mannfræði. Verðlaunin, sem nefnd eru eftir kvikmyndatökumanninum og mannfræðingnum Manfred Krüger, sem vann að yfir 80 heimildamyndum víðsvegar um heiminn á áratuga löngum ferli, eru veitt fyrir framúrskarandi kvikmyndatöku á sviði mannfræðilegra heimildamynda. Í umsögn dómnefndar, segir meðal annars að í Hálfum Álfi sé myndavélin ávallt á réttum stað, með rétta sjónarhornið, rétta lengd af skoti, réttan ramma og á réttum tíma til þess að fanga galdrana í augnablikinu.

Hálfur Álfur vann dómnefndarverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar árið 2020 og hefur síðan þá verið sýnd á kvikmyndahátíðum víðsvegar um Evrópu og verið tilnefnd til verðlauna, meðal annars sem bjartasta vonin á Nordisk Panorama. Myndin er framleidd af þeim Jóni Bjarka og Hlín Ólafsdóttur fyrir SKAK bíófilm, í samstarfi við þau Andy Lawrence og Veroniku Janatkovu. Með sölu og dreifingu erlendis fer Feelsales.

Kvikmyndin fjallar um vitavörðinn Trausta sem tengist sínum innri álfi á meðan hann undirbýr hundrað ára afmælið eða eigin jarðarför. Á sama tíma hörfar Hulda inn í heim horfinna ljóða með aðstoð stækkunarglersins síns. Þegar hann brestur í söng skipar hún honum að hætta þessum öskrum. Jón Bjarki fylgdi afa sínum og ömmu, þeim Trausta Breiðfjörð Magnússyni
og Huldu Jónsdóttur, eftir á þeirra síðasta æviskeiði, en myndin var að hluta til unnin í Meistaranámi Jóns Bjarka í sjónrænni mannfræði við Freie Universitat í Berlín.