Um KMÍ
Á döfinni

25.9.2024

Hátt í 40 kvikmyndir sýndar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni á Ísafirði

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin PIFF á Ísafirði verður sú stærsta til þessa er hún verður haldin í fjórða sinn dagana 10.-13 október. Hátt í 40 myndir verða sýndar í ár. Þar af tólf stuttmyndir, fimm heimildarmyndir, sex teiknimyndir, fimm nemendamyndir og tíu kvikmyndir í fullri lengd. 

Hátíðin hefst með sýningu á heimildamyndinni Afsakið meðanað ég æli þar sem Ísfirðingurinn Spessi kafar ofan í líf tónlistarmannsins Megasar. Sýningar fara svo fram á Ísafirði og í Súðavík frá fimmtudegi til sunnudags. Allt frá íslensku morðgátunni Eftirleikir og sannsögulega pólska njósnadramanu Doppelganger til indversku barnamyndarinnar Return of the Jungle. Dagskránni lýkur með verðlaunahátíð sem streymt verður um allan heim.

Von er á mörgum erlendum gestum sem fylgja myndum sínum á hátíðina. Má þar nefna sem dæmi kanadíska leikstjórann og framleiðandann Avi Federgreen sem segist afar spenntur að koma í fyrsta skipti til Íslands til að frumsýna ástríðuverkefni sitt til átta ára. „Mér finnst ég mjög lánsamur að eftir yfir 30 ára reynslu af framleiðslu yfir 70 kvikmynda í fullri lengd mun frumraun mín sem leikstjóri, myndin HOME FREE, verða frumsýnd á alþjóðlegu Pigeon kvikmyndahátíðinni.“ Myndin er angurvært en fallegt fjölskyldudrama og verður sýnd laugardaginn 12. október kl. 18.

Einnig er von á gestum frá Spáni, Póllandi, Íran, Bandaríkjunum og fleiri löndum. Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á vefsíðu PIFF og á Facebook.