Um KMÍ
Á döfinni

5.7.2024

Heimsklassa heimildamyndir á IceDocs

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin IceDocs – Iceland Documentary Film Festival er haldin í sjötta sinn dagana 17. - 21. júlí. Hátíðin er haldin á Akranesi og býður upp á fjölda heimsklassa heimildamynda, metnaðarfulla bransadagskrá og vandaða barna og unglingadagskrá.

IceDocs verður haldin í Bíóhöllinni, einu elsta starfandi bíói á landinu. Auk þess fer fram fjöldi viðburða vítt og breitt um bæinn á meðan hátíðinni stendur.

Hátíðin hefur fengið lof frá gestum og fjölmiðlum innanlands sem utan og hlaut Eyrarrósina árið 2021 fyrir framúrskarandi menningarverkefni. IceDocs er styrkt af Kvikmyndasjóði Íslands, Sóknaráætlun vesturlands, Vinum hallarinnar, Breiðinni og Akraneskaupstað.

Þess má geta að flestir leikstjórar verða viðstaddir hátíðina og verða með spurt og svarað að loknum sýningum. Öll dagskráin og miðasala er á www.icedocs.is.

Meðal helstu mynda á hátíðinni eru:

Balomania eftir Sissel Morrell Dargis. (2023, Danmörk/Spánn) Hún fjallar um áhugamenn um loftbelgi í Brasilíu en áhugamálið er bannað af yfirvöldum. Einstök heimildamynd eftir unga danska leikstýru sem hefur fengið mikið lof gagnrýnenda.

Hollywoodgate eftir Ibrahim Nash'at (2024, Þýskaland/ bandaríkin)

Bandaríski herinn yfirgefur Afganistan og augu heimsins fara með honum. Hollywoodgate tekur upp þráðinn og fylgir Talíbönunum þegar þeir finna og yfirtaka forðabúr Hollywood Gate, bækistöð hersins sem er sögð hafa verið eign CIA. Þar finna þeir ýmis háþróuð vopn, þyrlur og herbúnað. Myndin skoðar breytta valdastöðu þeirra og fylgir þeim í eitt ár.

Forest eftir Lidia Duda (2024, Tékkland, Pólland)

Asia og Marek eru ung og full vonar. Í von um betra líf fyrir sig og börn sín flytja þau í einn elsta skóg í Evrópu, sem er staðsettur við austurlandamæri Póllands. Vaxandi mannúðarkreppa á landamærum ESB setur líf þeirra úr skorðum. Myndin vann til verðlauna á Thessaloniki hátíðinni á árinu.

Body eftir Petra Seliškar (2023 Slóvenía, Norður Makedónía, Króatía)

Í Body fangar leikstjórinn Petra Seliškar tuttugu ára baráttu vinkonu sinnar, Urška, við sjálfsofnæmi. Urška, píanisti sem var eitt sinn atvinnumódel, tekst á við erfið veikindi en tapar aldrei baráttuandanum. Saga af vináttu, veikindum og kvikmyndagerð.

Heartist eftir Marianna Mørkøre og Beinta á Torkilsheyggi (20243, Færeyjar)

Heartist kannar líf og list listakonunnar Sigrunar Gunnarsdóttur en hún er einn merkilegasti samtímalistamaður Færeyja. Litríkur og einfaldur stíll hennar hefur hlotið hljómgrunn í listaheiminum og athygli bæði heima fyrir og á alþjóðlega vísu. Þessi heimildarmynd rímar við fagurfræði og vandlega samsett myndmál listakonunnar og kafar í listræna sýn hennar, lífshlaup og persónulegar áskoranir. Mynd sem veitir innblástur við að elta drauma sína sama á hvaða aldri maður er.

The Stimming Pool eftir Benjamin Brown, Georgia Kumari Bradburn, Sam Chown-Ahern, Robin Elliott-Knowles, Steven Eastwood og Lucy Walker (2024 England)

Tilraunakennd og, á köflum, ævintýraleg mynd eftir Neuroculture collective, kollektívu fimm skynsegin listamanna, og Steven Eastwood. Stimming Pool er óhefðbundið og listrænt sjónarhorn á hvað þarf til þess að komast skynseginn í gegnum óreiðukenndan heim, sem oft er fjandsamlegur þeim sem öðruvísi eru.

The Last Year of Darkness eftir Ben Mullinkosson (2023 Kína, Bandaríkin)

Bassinn drynur í þessu neonlita portretti af jaðarsettum ungmennum í landi sem tekur stöðugum breytingum. Funky Town, lítill klúbbur í Kína, er heitasti staðurinn meðal hóps tvítugra plötusnúða, draglistafólks, elskenda, „reifara“ og hjólabrettaiðkenda. Þarna, í felum bak við byggingarkrana, fá fimm heimamenn tímabundið grið frá amstri dagsins. Þegar sólin rís og kranarnir taka aftur til starfa þurfa klúbbgestirnir að takast á við það sem dró þau þangað — að hætta að kasta upp og alast upp.

Fjallið það öskrar eftir Daníel Bjarnason (2024, Ísland)

Þann 16. janúar árið 1995 féll mannskætt snjóflóð á sjávarþorpið Súðavík. Í þessari hjartnæmu heimildarmynd eru sagðar sögur þriggja einstaklinga sem upplifðu hamfarirnar frá mismunandi sjónarhornum. „Fjallið það öskrar“ er heiður til vestfirðinga, minning um þau líf þeirra sem fórust og vitnisburður um styrk samfélags sem stóð saman á myrkum tímum. Myndin hlaut áhorfendaverðlaun Skjaldborgar í ár.