Um KMÍ
Á döfinni

1.9.2021

Hildur Guðnadóttir heiðruð sem tónskáld ársins á viðburðinum Songs of Hope

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir mun koma til með að vera heiðruð sem tónskáld ársins (EA Music Composer of the Year) á Songs of Hope viðburðinum sem fer fram í stafrænu formi þann 30. september. Viðburðurinn fer nú fram í 16. skipti og stendur stofnunin City of Hope fyrir honum. Í frétt frá Variety segir að stofnunin heiðri árlega nokkra lagahöfunda og tónskáld í því skyni að þakka fyrir stuðning og framlög tónlistargeirans til baráttunnar gegn krabbameini, sykursýki og öðrum lífshættulegum sjúkdómum. Smokey Robinson og rapparinn Pop Smoke heitinn eru á meðal þeirra sem verða einnig heiðraðir á viðburðinum.

Hildur hefur átt farsælan feril í kvikmyndatónlist þar sem hún hefur unnið til allra helstu verðlauna fyrir tónlist sína. Hæst ber að nefna Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína í myndinni Joker. Hún hefur einnig unnið tvenn Grammy-verðlaun, BAFTA verðlaun, Emmy verðlaun, Golden Globe og Critics' Choice. Nýjasta verkefni Hildar er að semja tónlist fyrir tölvuleikinn Battlefield 2042 og er það í fyrsta skipti sem hún semur tónlist fyrir tölvuleik, en hana semur hún í samstarfi við eiginmann sinn, Sam Slater.

Nánari upplýsingar um Songs of Hope viðburðinn má finna í frétt Variety hér.  Photo credit: Nick Agro / ©A.M.P.A.S.