Um KMÍ
Á döfinni

22.12.2022

Hildur Guðnadóttir, Sara Gunnarsdóttir og Heba Þórisdóttir í forvali til Óskarsverðlauna

Tónlist Hildar Guðnadóttur í kvikmyndinni Women Talking er á meðal 15 frumsaminna tónverka sem eru í forvali til Óskarsverðlaunanna 2023. Teiknimyndin My Year of Dicks, í leikstjórn Söru Gunnarsdóttur, er í forvali til verðlaunanna, í flokkinum „Animated Short Film“. Heba Þórisdóttir er einnig á stuttlistanum, fyrir förðun og hár í kvikmyndinni Babylon.

Tilkynnt var um forvalið í gær, 2. desember. Hildur og Sara eiga því möguleika á að hljóta tilnefningu til Óskarsverðlaunanna, en tilkynnt verður um það 24. janúar.

Nýverið var tilkynnt að Hildur er tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna fyrir tónlistina í Women Talking. Leikstjóri myndarinnar er Sarah Polley og fjallar hún um hóp kvenna í einangraðri trúarhreyfingu sem tekst á við langa sögu misnotkunar. Hildur hlaut Óskarsverðlaun, fyrst Íslendinga, árið 2020 fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker.

My Year of Dicks var heimsfrumsýnd á South by Southwest í vor, þar sem hún hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar. Teiknimyndin byggist á endurminningabók Pamelu Ribon og fjallar á hispurslausan hátt um stúlku sem einsetur sér að missa meydóminn. Hún hefur ferðast á milli fjölda kvikmyndahátíða og unnið til verðlauna, meðal annars á Annecy-kvikmyndahátíðinni sem besta sjónvarpsframleiðslan.

Heba Þórisdóttir hefur séð um förðun fyrir fjölda stórra Hollywoodmynda, svo sem Don't Worry Darling, Once Upon a Time ... in Hollywood og The Suicide Squad.