Um KMÍ
Á döfinni

13.12.2022

Hildur Guðnadóttir tilnefnd til Golden Globe

Hildur Guðnadóttir tónskáld er tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Women Talking.

Þetta er í annað sinn sem Hildur er tilnefnd til verðlaunanna í flokki fyrir bestu upprunalegu tónlistina, en tilkynnt var um tilnefningar mánudaginn 12. desember. Árið 2020 hlaut hún verðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker. Hlaut hún fjölda tilnefninga og verðlauna fyrir tónlistina í myndinni, Óskarsverðlaun þar á meðal, fyrst Íslendinga.

Leikstjóri og handritshöfundur Women Talking er Sarah Polley, með aðalhlutverk fara Rooney Mara og Claire Foy. Hildur semur einnig tónlist myndarinnar Tár, í leikstjórn Todd Field, sem tilnefnd er í þremur flokkum Golden Globe-verðlaunanna, þar á meðal sem besta myndin í drama-flokki, en ekki í flokki frumsamdrar tónlistar.

Samtök erlendra fréttamanna standa að Golden Globe-verðlaununum. Sýnt verður beint frá athöfninni í fyrsta skipti í tvö ár, 10. janúar 2023 í Los Angeles.