Um KMÍ
Á döfinni

22.8.2025

Hlynur Pálmason með þrennu á kvikmyndahátíðinni í San Sebastian

Íslenski kvikmyndaleikstjórinn og myndlistarmaðurinn Hlynur Pálmason skipar sérstakan sess á kvikmyndahátíðinni í San Sebastian í ár, þar sem hann sýnir tvær íslenskar kvikmyndir í keppni og er jafnframt heiðraður með einkasýningu á Tabakalera, alþjóðlegri miðstöð samtímalistar í borginni.

Nýjasta kvikmynd Hlyns er Jóhanna af Örk, 62 mínútna löng mynd sem gerist í sama heimi og Ástin sem eftir er og fjallar um börnin þrjú í myndinni. Myndin verður heimsfrumsýnd í Zabaltegi-Tabakalera flokknum, en einnig verður Ástin sem eftir er sýnd í Perlak flokki hátíðarinnar, sem samanstendur af bestu myndum ársins til þessa sem enn hafa ekki verið sýndar á Spáni. Meðal annarra leikstjóra sem eiga myndir í Perlak flokki ársins eru Richard Linklater, Yorgos Lanthimos, Joachim Trier og Noah Baumbach.

Með þessu staðfestir Hlynur sess sinn sem einn af fremstu kvikmyndagerðarmönnum hátíðarinnar. Samhliða sýnir Tabakalera stórbrotna einkasýningu á innsetningum hans: Harmljóð um hest, Eins Vetra og Upphaf og Endir– verk sem undirstrika feril hans sem leikstjóra og myndlistarmanns.

Jóhanna af Örk fylgir þremur systkinum sem smíða riddarafígúru til að nota sem skotmark fyrir bogfimiæfingar sínar. Í gegnum árstíðirnar fylgjumst við með lífi þeirra er þau bæði byggja upp og rífa niður þetta einstaka sköpunarverk sitt.

„Mér er mikill heiður sýndur, að fá boð um að taka þátt á San Sebastián hátíðinni með tvær kvikmyndir og listsýningu. Þetta er tækifæri til að sýna hvernig vinna mín á mörkum kvikmynda og myndlistar talar saman og opnar nýja frásagnarmöguleika“ segir Hlynur Pálmason.

Hlynur hefur áður notið velgengni á San Sebastian hátíðinni, sem er ein af lykilhátíðum Evrópu. Síðasta mynd hans, Volaða Land (2022), hlaut Zabaltegi-Tabakalera verðlaunin árið 2022 og þá var stuttmynd hans Hreiður einnig sýnd á hátíðinni. Nú styrkir hann stöðu sína enn frekar sem einn af fremstu kvikmyndagerðarmönnum Norðurlanda.

Jóhanna af Örk er framleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir STILL VIVID á Íslandi, í samstarfi við Katrin Pors fyrir Snowglobe í Danmörku.
Með helstu hlutverk fara þau Ída Mekkín Hlynsdóttir, Þorgils Hlynsson, og Grímur Hlynsson.

Jóhanna af Örk er meðframleidd af Mikkel Jersin hjá Snowglobe, Danmörku og Didar Domehri hjá Maneki Films, Frakklandi.
Meðal bakhjarla hennar eru Kvikmyndamiðstöð Íslands, Danski kvikmyndasjóðurinn, SASS, og CNC.
New Europe Film Sales sér um alþjóðlega sölu líkt og fyrri myndir Hlyns.

Kvikmyndahátíðin í San Sebastián fer fram í 73. sinn dagana 19.–27. september.