Um KMÍ
Á döfinni

9.1.2025

Handritshöfundar Húsó tilnefndir til verðlauna á Kvikmyndahátíðinni í Gautaborg

Sjónvarpsþáttaröðin Húsó er tilnefnd til Nordic Series-verðlaunanna 2025 fyrir besta handrit sjónvarpsþáttaraða á Norðurlöndum. Verðlaunin eru afhent á Kvikmyndahátíðinni í Gautaborg.

Handritshöfundar Húsó eru Arnór Pálmi Arnarson og Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir. Þættirnir voru frumsýndir á RÚV í ársbyrjun 2024.

Húsó segir frá Heklu, sem hefur verið inn og út af meðferðarstofnunum frá unglingsaldri. Þegar hún missir forræði yfir dóttur sinni gerir hún tilraun til að halda sig á beinu brautinni með því að skrá sig í Hússtjórnarskólann í Reykjavík. Meðal leikara eru Ebba Katrín Finnsdóttir, Edda Björgvinsdóttir og Katla Þórudóttir Njálsdóttir.

Verðlaunaféð nemur 200.000 norskum krónum. Verðlaunin taka við af Nordic Series Awards, sem Nordisk Film & TV Fond stóðu fyrir frá árinu 2017. Tilkynnt verður um verðlaunahafa 28. janúar.