Um KMÍ
Á döfinni

20.8.2019

Hvítur, hvítur dagur framlag Íslands til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2019

Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason er sú íslenska kvikmynd sem tilnefnd er til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár og keppir þar með við fjórar aðrar myndir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs verða afhent við hátíðlega athöfn þann 29. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólm, Svíþjóð.

Fyrr í dag kom einnig í ljós að kvikmynd Hlyns hefur verið valin sem ein af 46 kvikmyndum í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin í ár.

Hvítur, hvítur dagur verður frumsýnd þann 6. september hér á landi, en myndin var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, í maí síðastliðnum þar sem hinn þjóðkunni Ingvar Sigurðsson var valinn besti leikarinn fyrir leik sinn í myndinni. Ingvar var einnig valinn besti leikarinn á kvikmyndahátíðinni í Transylvaníu síðastliðinn júni auk þess sem Hvítur, hvítur dagur var valin besta mynd kvikmyndahátíðarinnar í Motovun í Króatíu. Myndin verður sýnd á Toronto kvikmyndahátíðinni í byrjun september.

Í fyrra vann íslenska kvikmyndin Kona fer í stríð undir leikstjórn Benedikts Erlingssonar, en það sama ár var hin dansk/íslenska kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Vetrarbræður, framlag Danmerkur. Árið 2015 vann Fúsi eftir Dag Kára til verðlaunanna og árið áður varð Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson fyrsta íslenska kvikmyndin til að vinna til verðlaunanna.

Hér með er tilkynnt um kvikmyndirnar fimm sem eru tilnefndar til hinna eftirsóttu Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Allar eru kvikmyndirnar framúrskarandi í alþjóðlegu samhengi og hafa þegar unnið til verðlauna á stærstu kvikmyndahátíðum í Evrópu og víðar.

Í íslensku dómnefndinni sátu Hilmar Oddsson, Helga Þórey Jónsdóttir og Börkur Gunnarsson.

Sigurvegari Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, sem hlýtur að launum 350.000 danskar krónur, eða tæplega 6 milljónir íslenskra króna, er mynd sem er runnin undan rifjum Norrænnar menningar og af miklum listrænum gæðum. Hún verður einnig að vera framúrskarandi hvað varðar listrænan frumleika og flétta saman á fágaðan máta undirstöðuatriðum kvikmyndalistarinnar svo úr verði sannfærandi heild. Að mati dómnefnda hafa þær fimm myndir sem tilnefndar eru að þessu sinni til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs einmitt þessa kosti til að bera, en myndirnar fimm eru:

Hvítur, hvítur dagur – Ísland

Leikstjóri/handritshöfundur er Hlynur Pálmason og framleiðandi er Anton Máni Svansson hjá Join Motion Pictures.

Hvítur, hvítur dagur - stikla

Hvítur, hvítur dagur segir frá Ingimundi lögreglustjóra sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást.

Dronningen – Danmörk

Leikstjóri er May el-Toukhy og handritshöfundar eru May el-Toukhy og Maren Louise Käehne. Framleiðendur eru Caroline Blanco og René Ezra.

Dronningen - stikla

Anne er snjall og metnaðarfullur lögfræðingur sem hefur sérhæft sig í málefnum barna og ungmenna. Hún virðist lifa hinu fullkomna lífi með eiginmanni sínum, lækninum Peter, og tvíburadætrum þeirra. Anne á einnig stjúpson á unglingsaldri, Gustav, sem hefur ekki haft mikið saman að sælda við fjölskyldu föður síns. Þegar Gustav flytur inn til Anne og Peters setur stigvaxandi losti stjúpmóðurinnar af stað atburðarás sem getur ógnað allri tilveru hennar ef upp kemst.

Dronningen er ítarleg lýsing á hörmulegu fjölskylduleyndarmáli og afleiðingum ofdrambs, losta og lyga sem leggjast á eitt til að leiða aðalpersónuna í óhugsandi ógöngur.

Aurora - Finnland

Leikstjóri/handritshöfundur er Miia Tervo og framleiðandi er Max Malka.

Aurora - stikla

Kvöld eitt við pylsuvagn í finnska Lapplandi kynnist hin partýglaða og skuldbindingafælna Aurora írönskum manni að nafni Darian. Darian þarf að giftast finnskri konu svo að hann og dóttir hans fái hæli í landinu. Aurora hyggur á flutninga til Noregs, burt frá ömurlegri tilveru sinni, og hafnar því umleitunum Darians. Þegar hún hefur hitt hina indælu dóttur hans fellst hún þó á að hjálpa feðginunum. Aurora kynnir Darian fyrir hverri konunni á fætur annarri en verður um leið æ nánari honum. Þegar hin fullkomna verðandi eiginkona kemur til skjalanna standa Darian og Aurora frammi fyrir tveimur afarkostum: að láta sem þau séu hamingjusöm eða hætta loksins að flýja.

Blindsone - Noregur

Leikstjóri/handritshöfundur er Tuva Novotny og framleiðandi er Elisabeth Kvithyll.

Blindsone - stikla

Blindsone er átakanleg saga af móður sem reynir sitt besta til að skilja geðsjúkdóm dóttur sinnar. Myndin er einstaklega næm athugun á þeim gráu svæðum – eða blindu blettum – sem geta torveldað skilning foreldra eða samfélagsins á geðrænum vandamálum, en einnig er varpað ljósi á þann vanda sem skapast þegar samfélag nútímans telur það eitt eftirsóknarvert sem tengist hamingju og velgengni fólks. Hvernig opnum við á erfiðar hugsanir og vandamál þegar ekki er ætlast til að við sýnum umheiminum neitt annað en ímynd fullkomnunar?

Rekonstruktion Utøya – Svíþjóð

Leikstjóri er Carl Javér og handritshöfundar eru Carl Javér, Fredrik Lange. Framleiðandi er Fredrik Lange.

Rekonstruktion Utøya - stikla

Sex árum eftir hryðjuverkaárásina í Útey þann 22. júlí 2011 koma Rakel, Mohammed, Jenny og Torje, sem öll lifðu árásina af, saman í Norður-Noregi til að rifja upp atburðina. Til fundar við þau koma tólf norsk ungmenni sem vilja hjálpa og skilja hvað gerðist. Sálfræðingur er til staðar gegnum allt verkefnið. Fundarstaðurinn er myndver þar sem minningar eftirlifenda af atburðunum í Útey eru rifjaðar upp og þeim raðað saman. Þau sem lifðu atburðina af segja frá sjálfra sín vegna, en einnig fyrir okkur hin. Fyrir nútímann og fyrir framtíðina. Í Rekonstruktion Utøya er fjallað um það ferli.

Á heimasíðu Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs má lesa frekar um verðlaunin og kynna sér tilnefndu kvikmyndirnar nánar.