Um KMÍ
Á döfinni

1.2.2018

Hvítur, hvítur dagur vann ARTE verðlaunin á CineMart

Hvítur, hvítur dagur, næsta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, sem er nú í þróun, vann ARTE verðlaunin á CineMart. CineMart er samframleiðslumarkaður hinnar virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíðar í Rotterdam í Hollandi. Anton Máni Svansson, sem mun framleiða myndina fyrir hönd Join Motion Pictures, var viðstaddur og veitti 6000 evra peningaverðlaununum viðtöku.

Á CineMart kynnti Anton Máni verkefnið ásamt dönskum meðframleiðanda myndarinnar, Katrin Pors frá Snowglobe, fyrir ýmsu fagfólki úr kvikmyndabransanum með það fyrir augum að taka næsta skref í sköpunarferli og finna fjármögnunaraðila. Myndin var kynnt fyrir 40 mögulegum samstarfsaðilum hvaðanæva að úr heiminum, þar á meðal framleiðendum, alþjóðlegum söluaðilum, sjónvarpsstöðvum og dreifingaraðilum.

Hvítur, hvítur dagur, var aðeins eitt af 16 verkefnum sem var valið úr tæplega 400 umsóknum. Markaðurinn fór fram samhliða kvikmyndahátíðinni í Rotterdam frá 28. – 31. janúar.

Þess má geta að árið 2013 vann kvikmynd Yorgos Lanthimos, The Lobster, sem skartar Colin Farrell og Rachel Weisz í aðalhlutverkum, til ARTE verðlaunanna. Á síðasta ári var myndin tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir besta frumsamda handrit.

Hvítur, hvítur dagur segir frá ábyrgum föður; ekkli og lögreglustjóra lítils sjávarþorps sem hefur verið frá starfi síðan eiginkona hans hvarf fyrir tveimur árum. Hann einbeitir sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og fjölskyldu þar til hann byrjar að gruna mann í þorpinu um að tengjast hvarfi konu hans. Með tímanum breytist grunur hans í þráhyggju sem óhjákvæmilega bitnar á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um hefnd, sorg og skilyrðislausa ást.

Myndin er með vilyrði fyrir framleiðslustyrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og er áætlað að tökur hefjist í ágúst á þessu ári.

Fyrstu kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd, hinni dönsk/íslensku Vetrarbræðrum, hefur gengið mjög vel síðan hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu Locarno kvikmyndahátíð í Sviss. Þar vann hún fjögur verðlaun og hefur alls unnið 13 alþjóðleg verðlaun, ásamt því að hljóta góða dóma hvarvetna.