Um KMÍ
Á döfinni

20.6.2022

IceDocs á Akranesi

Alþjóðlega heim­ilda­mynda­hátíðin IceDocs verður hald­in í fjórða sinn í sumar á Akranesi um Jónsmessuhelgina 22.-26. júní.

Eins og undanfarin ár verður fjöldi heimildamynda á dagskrá auk annarra viðburða sem setja svip sinn á Akranes þessa helgi.

Markmið IceDocs er að koma því besta sem er að gerast í alþjóðlegri heimildamyndagerð á framfæri á Íslandi og tengja saman kvikmyndagerðafólk víðs vegar að úr heiminum. Frítt er inn á allar bíósýningar en selt verður inn á tónleika og aðra staka viðburði.

Sex heimildamyndir í fullri lengd eru sýndar í aðalkeppni hátíðarinnar: A House Made of Splinters eftir Simon Lereng Wilmont (Danmörk/Úkraína/Svíþjóð), A Night of Knowing Nothing eftir Payal Kapadia (Indland/Frakkland), The Balcony Movie eftir  Paweł Łoziński (Poland), The Eclipse eftir Nataša Urban (Norway), Three Minutes - A Lengthening eftir Bianca Stigter (Holland/Bretland) og Young Plato eftir Neasa Ní Chianáin and Declan McGrath (Írland/Belgía/Frakkland). Einnig eru sýndar fimm stuttmyndir í stuttmyndahluta hátíðarinnar. 

Allar kvikmyndasýningar hátíðarinnar fara fram í Bíóhöllinni, einu elsta kvikmyndahúsi landsins, en aðrir viðburðir eru meðal annars haldnir í fjörunni, á breiðinni og í Akranesvita.

Vefur hátiðarinnar: www.icedocs.is.