Um KMÍ
Á döfinni

23.5.2019

Ingvar Sigurðsson valinn besti leikarinn á Critics' Week í Cannes

Ingvar Sigurðsson aðalleikari kvikmyndarinnar Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason hlaut leikaraverðlaunin á Critics' Week sem er hliðardagskrá hinnar virtu kvikmyndahátíðar í Cannes. Verðlaunin eru kennd við Louis Roederer Foundation (Louis Roederer Foundation Rising Star Award) og eru önnur aðalverðlaunanna á Critics' Week sem veitt eru fyrir mynd í fullri lengd.

Hvítur, hvítur dagur verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi 6. september 2019.

Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handritið að Hvítum, hvítum degi en myndin var heimsfrumsýnd þann 16. maí síðastliðinn. Myndin fjallar um lögreglustjórann Ingimund sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Hann einbeitir sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst.

Myndin hefur hlotið mikið lof og fengið frábæra dóma hjá hinum ýmsu virtu kvikmyndatímaritum á borð við Cineuropa, Screen International og The Hollywood Reporter. Þá hafa gagnrýnendur farið fögrum orðum um leik Ingvars: „Ingimundur er heillandi og áhugaverður karakter, meistaralega dreginn upp af Ingvari Sigurðssyni“ segir í Screen International.

Hvítur, hvítur dagur er önnur kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd á eftir hinni dönsk/íslensku Vetrarbræður, sem kom út árið 2017 og fór sigurför um heiminn í kjölfar heimsfrumsýningu í aðalkeppni Locarno kvikmyndahátíðarinnar í Sviss. Framleiðandi myndarinnar er Anton Máni Svansson fyrir Join Motion Pictures og einn af yfirframleiðendum er Guðmundur Arnar Guðmundsson, en myndin er íslensk/dönsk/sænsk samframleiðsla. Meðframleiðendur eru Katrin Pors, Mikkel Jersin og Eva Jakobsen fyrir Snowglobe, Nima Yousefi fyrir Hobab og Anthony Muir fyrir Film i Väst.

Með önnur helstu hlutverk myndarinnar fara þau Ída Mekkín Hlynsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Haraldur Ari Stefánsson, Laufey Elíasdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Arnmundur Ernst Bachman, Þór Tulinius og Sverrir Þór Sverrisson.

Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Mariu von Hausswolff og Julius Krebs Damsbo sér um klippingu myndarinnar. Hljóðhönnuður myndarinnar er Lars Halvorsen, leikmyndahönnuður Hulda Helgadóttir og tónlist er eftir Edmund Finnis. 

Með sölu og dreifingu erlendis fer New Europe Film Sales (jan@neweuropefilmsales.com) og Sena sér um dreifingu hennar á Íslandi.

Þess má einnig geta að danska/færeyska stuttmyndin Ikki illa meint eftir Andrias Høgenni vann til Canal+ verðlaunanna fyrir bestu stuttmyndina þetta árið á Critics' Week.