Ingvar Sigurðsson valinn besti leikarinn á hátíðinni í Clermont-Ferrand
Ingvar E. Sigurðsson var valinn besti leikarinn á alþjóðlegu stuttmyndahátíðinni í Clermont-Ferrand í Frakklandi, einni stærstu og mikilvægustu stuttmyndahátíð heims. Hátíðin fór fram í fertugasta og sjöunda sinn, dagana 31. janúar til 8. febrúar, og voru yfir 4.100 þátttakendur skráðir á markað hennar og fleiri en 173.000 miðar seldir á sýningar.
Verðlaunin hlýtur Ingvar fyrir hlutverk sitt í stuttmyndinni O (hringur) í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar. Framleiðandi myndarinnar er Heather Millard. Hátíðin í Clermont-Ferrand er ein stærsta stuttmyndahátíð heims.
O (Hringur) er ljóðræn frásögn af manni sem vill standa sig en hans helsta hindrun er hann sjálfur. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í haust og hefur verið á ferðalagi um heiminn síðan. Eru þetta þriðju alþjóðlegu verðlaun myndarinnar og er hún einnig komin í forval Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2025.