Um KMÍ
Á döfinni

16.5.2022

Ísland á kvikmyndahátíðinni í Cannes

Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða land, verður heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cannes sem fer fram dagana 17.-28. maí. Myndin tekur þátt í keppnisflokknum Un Certain Regard í aðaldagskrá hátíðarinnar. 

Auk hennar verða íslenskar myndir sýndar á markaðshluta hátíðarinnar, heimildamyndin Mannvirki eftir Gústav Geir Bollason og stuttmyndirnar Hex eftir Katrínu Helgu Andrésdóttur og Mitt draumaland eftir Sigga Kjartan.

Einnig ber að nefna að Benedikt Erlingsson, leikari og kvikmyndagerðarmaður, situr í dómnefnd Semaine de la Critique, eða gagnrýnendavikunnar, á hátíðinni. Kvikmynd hans, Kona fer í stríð, var sýnd þar 2018.

Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur aðsetur í Skandínavíska húsinu í Cannes (11 Square Mérimée, skammt frá Palais de Festival) á meðan hátíðinni stendur, þar sem norrænar kvikmyndastofnanir og miðstöðvar kynna kvikmyndir frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.


Un Certain Regard


Volaða land – Hlynur Pálmason

Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands með það að markmiði að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar á för sinni. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn smám saman tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu, og eigin siðgæði.

Volaða land verður frumsýnd í aðaldagskrá Cannes-hátíðarinnar 24. maí.

Un Certain Regard hluti kvikmyndahátíðarinnar í Cannes var settur á laggirnar árið 1978 og þar er keppt um „Prix Un Certain Regard“. Markmiðið með verðlaununum er að gera kvikmyndagerðarmönnum sem hafa gert kvikmynd sem hefur frumleika og hugrekki að leiðarljósi hátt undir höfði, meðal annars með styrk til dreifingar á kvikmyndinni í Frakklandi.

Leikstjóri: Hlynur Pálmason.
Handritshöfundur: Hlynur Pálmason.
Framleiðendur: Katrin Pors, Anton Máni Svansson, Eva Jakobsen, Mikkel Jersin.
Meðframleiðendur: Didar Domehri, Mimmi Spång, Anthony Muir, Peter Possne, og Guðmundur Arnar Guðmundsson.


Cannes Docs-in-Progress


Mannvirki – Gústav Geir Bollason

Landslag á öld mannsins. Í því miðju er post-industrial“-strúktúr, sem náttúruöflin hafa mótað í tímans rás. Framvinda í rústum þar sem sjá má verkamenn, hlutast til um eða ýta undir hnignun byggingarinnar. Verur, dýr, gróður, sem eru í snertingu við bygginguna hafa áhrif á hana, hver með sínu lagi.

Mannvirki verður kynnt sem hluti af Showcase Scandinavia, sem heimildamynd í vinnslu, þann 21. maí.

Leikstjóri: Gústav Geir Bollason.
Handritshöfundur: Gústav Geir Bollason.
Framleiðendur: Hrönn Kristinsdóttir, Annick Lemonnier.


Marché du Film


Berdreymi– Guðmundur Arnar Guðmundsson

Berdreymi segir frá Adda, unglingsstrák í Reykjavík sem á skyggna móður. Hann og vinir hans alast upp án eftirlits og nota slagsmál til að leysa ágreininga. Einn daginn ákveður Addi að taka vinalausan strák undir sinn verndarvæng. Djúp vinátta myndast á milli strákanna en ögrandi hegðun þeirra leiðir þá í lífshættulegar aðstæður. Draumkenndar sýnir byrja þá að birtast Adda. Mun nýfengið innsæi hans verða honum og vinum hans leiðarljós í átt að betra lífi eða munu þeir sökkva lengra inn í heim ofbeldis?

Berdreymi var heimsfrumsýnd á Berlinale-kvikmyndahátíðinni í febrúar þar sem hún hlaut verðlaun sem besta evrópska myndin í Panorama-flokki hátíðarinnar.

Leikstjórn: Guðmundur Arnar Guðmundsson.
Handrit: Guðmundur Arnar Guðmundsson.
Aðalframleiðandi: Anton Máni Svansson.
Meðframleiðendur: Lise Orheim Stender, Jesper Morthorst, Linda van der Herberg, Jeroen Beker, Nima Yousefi og  Pavel Strnad.

Short Film Corner


Eftirtaldar stuttmyndir verðar sýndar í Short Film Corner hluta Cannes hátíðarinnar. Myndirnar eru hluti af flokknum Cool Shorts from the North sem Scandinavian Films, samtök kvikmyndastofnanna á Norðurlöndunum, standa að.

Hex 

Framúrstefnuleg absúrd kvikmynd, gegnsýrð af hryllingi. Sagan er sögð frá sjónarhorni barns sem horfir upp á heimili sitt fyllast af uppstríluðum nornum í gegnum linsu DV myndavélar. Hún er hrædd en móðirin fylgist passív með hlutunum fara úr böndunum.

Leikstjóri: Katrín Helga Andrésdóttir.
Handritshöfundur: Katrín Helga Andrésdóttir, Sóley Stefánsdóttir.
Framleiðandi: Hanna Björk Valsdóttir.

Mitt draumaland

Á hernumndu Ísland kemur hin upprennandi söngkonan Björk fram á forðboðnum klúbbi bandaríkjahers, Camp Tripoli. Þegar hún heldur út í nóttina lendir hún í klóm hins fasíska Ungmennaeftirlits og alíslenskrar fáfræði.

Leikstjóri: Siggi Kjartan.
Handrit: Siggi Kjartan.
Framleiðendur: Thelma Torfadóttir.
Meðframleiðendur: Árni Filippusson, Davíð Óskar Ólafsson.