Ísland í brennidepli á kvikmyndahátíð í Danmörku
Kvikmyndahátíðin Nordatlantiske Filmdage fer fram í áttunda sinn 6. til 16. mars í menningarhúsinu Norðurbryggju í Kaupmannahöfn .
Í ár verður lögð sérstök áhersla á þá farsælu þróun sem átt hefur sér stað í íslenskri kvikmyndagerð upp á síðkastið.
Íslenskar kvikmyndir á dagskrá hátíðarinnar í ár eru Tilverur eftir Ninnu Pálmadóttur, Snerting eftir Baltasar Kormák, Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Elfar Aðalsteins og Ljósbrot og O (hringur) eftir Rúnar Rúnarsson.
Ninna Pálmadóttir, Elfar Aðalsteins og Rúnar Rúnarsson verða viðstödd sýningar myndanna sinna og spjalla um þær að þeim loknum. Aðrar kvikmyndir verða kynntar af Birgi Thor Møller, dagskrárstjóra og kvikmyndafræðingi.
Einnig verður sérstök 25 ára afmælissýning á Englum alheimsins en hana gerði Friðrik Þór Friðriksson árið 2000 eftir samnefndri bók Einars Más Guðmundssonar.
Líkt og fyrri ár verður einnig hægt að sjá kvikmyndir frá Grænlandi og Færeyjum á hátíðinni í Kaupmannahöfn og valdar myndir verða einnig sýndar í Árósum og Álaborg. Þar að auki hefur dagskrárstjóri Birgir Thor Møller séð um kvikmyndadagskrá fyrir nýja hátíð í New York og Seattle sem ber heitið West Nordic Film Days, þar sem valdar myndir verða sýndar 14. og 15. mars.
Kvikmynd Ninnu Pálmadóttur, Tilverur, fer svo í almennar sýningar í kvikmyndahúsum í Danmörku eftir hátíðina.
Kvikmyndahátíðin Nordatlantiske Filmdage er styrkt af Det Danske Filminstitut, NAPA í Grænlandi og sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Hún er unnin í samstarfi við m.a. Øst for Paradis, Biffen í Álaborg, Film.gl og Nuuk International Film Festival í Grænlandi, Filmshúsið í Færeyjum og Kvikmyndamiðstöð Íslands.