Um KMÍ
Á döfinni

6.11.2024

Íslensk kvikmynda- og sjónvarpsverk á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck

Nordische Filmtage fara fram í 66. Sinn í Lübeck í Þýskalandi 6.-11. nóvember. Í ár verða fimm íslensk kvikmynda- og sjónvarpsverk sýnd á hátíðinni, sem er ein sú stærsta og mikilvægasta sem helguð er kvikmyndagerð á Norðurlöndum.

Rúnar Rúnarsson sýnir þar bæði kvikmyndina Ljósbrot og stuttmyndina O (hringur). Bæði kvikmyndaverkin hafa verið á ferðalagi milli stærstu og virtustu kvikmyndahátíða heims síðan þau voru heimsfrumsýnd í Cannes og á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Heimildamynd Pamelu Hogan, Dagurinn sem Ísland stöðvaðist, verður einnig sýnd á hátíðinni. Myndina gerir hún í samstarfi við Hrafnhildi Gunnarsdóttur og hefur hún notið mikillar velgengni síðan hún var heimsfrumsýnd á stærstu heimildamyndahátíð Norður-Ameríku, Hot Docs, fyrr á árinu.

Stuttmyndin Þið kannist við..., í leikstjórn Guðna Líndals Benediktssonar, verður að auki sýnd í Lübeck. Myndin hefur hitt í mark víða, ferðast á milli fjölda alþjóðlegra kvikmyndahátíða og unnið til verðlauna. Handritið skrifar Guðni ásamt Ævari Þór Benediktssyni.

Önnur þáttaröð Svörtu sanda, verður svo sýnd í sjónvarpshluta hátíðarinnar. Þáttaröðin kemur í beinu framhaldi af þeirri fyrstu, sem naut mikilla vinsælda og var seld víða um heim. Leikstjórar eru Baldvin Z, Álfheiður Marta Kjartansdóttir og Erlendur Sveinsson. Aldís Amah Hamilton, Elías Kofoed-Hansen og Ragnar Jónsson skrifa handrit ásamt Baldvin Z.