Um KMÍ
Á döfinni

3.10.2022

Íslensk kvikmyndagerð á RIFF

RIFF, alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, stendur nú yfir. Hátíðin hófst 29. september og lýkur 9. október með heimsfrumsýningu á kvikmynd Elfars Aðalsteinssonar, Sumarljós og svo kemur nóttinn, sem byggist á samnefndri skáldsögu Jóns Kalmans.

Myndin er sýnd í flokki hátíðarinnar sem nefnist Ísland í sjónarrönd. Þar eru sýndar kvikmyndir, heimildamyndir og stuttmyndir þar sem íslenskt kvikmyndagerðarfólk kemur við sögu.

Útdauði neyðarástand (Exxtinction Emergency) er heimildamynd eftir Sigurjón Sighvatsson sem fjallar um umhverfissamtökin Extinction Rebellion sem voru stofnuð í Bretlandi 2018.

Tíu (Ten) eftir Dean DeBlois fjallar um hljómsveitina Of Monsters and Men. Í myndinni er fylgst með sveitinni á tónleikaferðalagi þar sem 10 ára afmæli fyrstu plötu hennar er fagnað.

Móðir mín, ríkið (My Mother the State), eftir Ievu Ozolinu, er heimildamynd  sem segir frá konu sem varð viðskila við systur sína þegar hún var ættleidd frá munaðarleysingjahæli þriggja ára.

Konungur fiðrildanna (King of the Butterflies) er heimildamynd eftir Olaf de Fleur. Myndin segir frá Darryl Francis, sem var á unglingsárum ranglega dæmdur sem vitorðsmaður í vopnuðu ráni og morði í LA. Hann byrjaði að skrifa gamansögur í fangelsinu en vegna bugunar eftir áfallið, sem felst í tveggja áratuga innilokun, hefur hann ekki getað setið kyrr og skrifað.

Blóð (Blood) eftir Bradley Rust Gray fjallar um unga konu sem ferðast til Japans eftir dauða eiginmanns síns. Þar leitar hún huggunar í gömlum vini en þegar hughreysting hans breytist í ást, áttar hún sig á því að hún þarf að leyfa sér að verða ástfangin aftur.

Beinagrind (Atomy) er heimildamynd eftir Loga Hilmarsson. Myndin fjallar um Brand, lamaðan listamann sem gengur í gegnum sársaukafullar æfingar skipulagðar af óhefðbundnum heilara.

Á RIFF eru að auki sýndar 13 nýjar íslenskar stuttmyndir, sem keppa um verðlaun á hátíðinni. Upplýsingar um myndirnar og sýningartíma má finna á vef RIFF, í flokkinum Ísland í sjónarrönd.