Um KMÍ
Á döfinni

19.9.2024

Íslensk kvikmyndagerð á RIFF 2024

RIFF, alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, hefst í Háskólabíói fimmtudaginn 26. september. Hátíðin stendur yfir til 6. október.

Í tilkynningu frá hátíðinni segir að úrvalið af leiknu efni og heimildarmyndum, eftir Íslendinga eða um Ísland, hafi raunar aldrei verið meira en í ár „og er það sérstakt fagnaðarefni og sýnir öðru fremur gróskuna og þróttinn í listalífinu hérlendis,“ segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF.

Myndirnar hafa margar hverjar vakið athygli á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum nýverið. Opnunarmynd RIFF er Elskling (Elskuleg) í leikstjórn hinnar norsk-íslensku Lilju Ingólfsdóttur. Myndin hlaut fjölda verðlauna á Karlovy Vary-hátíðinni fyrr í sumar. Má þar einnig nefna Tímabundið skjól (Temporary Shelter) í leikstjórn Anastasiiu Bortuali sem fékk frábærar móttökur á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto. 

Einnig má nefna hina íslensk-kanadísku Bogancloch, sem var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Locarno fyrir skemmstu auk Fuglalífs, heimildamynd Heims Freys Hlöðverssonar um Jóhann Óla Hilmarsson baráttumann náttúruverndar.

Þá er íslensk-kanadíski sálfræðitryllirinn Allra augu á mér (All Eyes on Me), í leikstjórn Pascals Payants, heimsfrumsýndur á RIFF í ár, en með aðalhlutverk þar fara Guðmundur Ingi Þorvalsson, Svandís Dóra Einarsdóttir og Þóra Karítas Árnadóttir.

Hægt er að kynna sér dagskrá RIFF á vef hátíðarinnar.