Um KMÍ
Á döfinni

8.6.2022

Íslensk kvikmyndagerð vekur athygli í Cannes

Kvikmyndahátíðin í Cannes fór fram á hefðbundnum tíma 17.-28. maí, í fyrsta sinn eftir tvö ár í heimsfaraldri þar sem hátíðum var ýmist frestað eða aflýst. Kvikmyndir frá Norðurlöndum voru fyrirferðarmiklar á hátíðinni í ár. Alls voru fimm norrænar kvikmyndir sýndar í aðaldagskrá, þar á meðal hin íslenska Volaða land eftir Hlyn Pálmason. 

Íslensk kvikmyndagerð stendur sterkum fótum í Cannes, á einni stærstu og virtustu kvikmyndahátíð heims þar sem þúsundir kvikmynda berjast um að komast að. Síðustu ellefu ár hafa átta íslenskar kvikmyndir verið valdar til sýninga á hátíðinni og hefur það vakið eftirtekt.

„Ein besta myndin sem sýnd var í Cannes“

Kvikmyndin Volaða land var heimsfrumsýnd á hátíðinni í flokki Un Certain Regard við góðar móttökur áhorfenda og gagnrýnenda. Sölufyrirtækið New Europe annast sölu myndarinnar, náði hún vel til dreifingaraðila og seldist vel á hátíðinni. Sýningarrétturinn var seldur til Curzon (til dreifingar á Englandi og Írlandi), til Scanorama (til dreifingar í Balkanlöndum), til A Contracorriente (til dreifingar á Spáni), til Vertigo Media (til dreifingar í Ungverjalandi) og til One from the Heart (til dreifingar í Grikklandi). Fyrir hátíðina hafði hún verið seld til Frakklands, Hollands, Póllands, Ástralíu og Nýja Sjálands. 

„Volaða land er hrífandi kvikmynd sem tekst á við pólitík, list, sögu, trú og náttúru á hárfínan og skarpskyggnan hátt,“ segir Eleonora Pesci, innkaupastjóri hjá Curzon í tilkynningu. „Þetta var ein besta myndin sem sýnd var í Cannes.“

Gagnrýnendur hafa einnig lofað myndina í hástert og margir þeirrar skoðunar að Volaða land hafi einmitt verið ein besta mynd hátíðarinnar, líkt og kemur fram í samantekt International Cinephile Society

Íslenskar myndir breiða úr sér á markaðnum

Íslenskar myndir voru að auki sýndar í markaðshluta Cannes, sem er aðskilin frá aðaldagskrá hátíðarinnar. Kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, Berdreymi, var þar á meðal en myndin vakti fyrir skemmstu mikla athygli á Berlinale-kvikmyndahátíðinni og hlaut þar verðlaun sem besta evrópska kvikmyndin. Heimildamynd Gústavs Bollasonar, Mannvirki, var kynnt í Docs-in-Progress hluta hátíðarinnar. Framleiðandi myndarinnar, Hrönn Kristinsdóttir, lýsti þar myndinni sem ljóðrænni og margradda frásögn, sem dansi á mörkunum milli listaverks og heimildamyndar. Myndin var á lokastigum framleiðslu og verður tilbúin til sýninga í júní. Stuttmyndirnar Mitt draumaland, eftir Sigga Kjartan, og Hex, eftir Katrínu Helgu Andrésdóttur, voru að auki sýndar stuttmyndahluta markaðarins, í dagskrá Scandinavian Films sem heitir Cool Shorts from the North.

Mikill áhugi á samstarfi við íslenska framleiðendur

Benedikt Erlingsson kvikmyndagerðarmaður sat svo í dómnefnd Semaine de la Critique, þar sem kólumbíska kvikmyndin La Jauría eftir Andrés Ramírez Pulido vann aðalverðlaunin. Benedikt sagði í viðtali við fréttastofu RÚV að þátttaka og framlag Íslands til einnar stærstu og virtustu kvikmyndahátíðar heims veki athygli og áhugi á samstarfi við íslenska framleiðendur sé mikill.

Ungir íslenskir framleiðendur fengu einnig tækifæri til að spreyta sig í vinnustofunni Young Nordic Producers Club, sem haldin var samhliða kvikmyndahátíðinni. Þau Lára Theodóra Kettler og Atli Óskar Fjalarsson voru í hópi tuttugu og fjögurra framleiðenda sem tóku þátt í vinnustofunni, sem er ætluð ungum framleiðendum frá Norðurlöndunum til þess að styrkja tengslanet og styðja við alþjóðlega samframleiðslu. Fyrir vinnustofunni standa Noemi Ferrer frá DR Sales og Tina Í Dali Wagner frá færeysku kvikmyndastofnuninni.

Einnig er vert að nefna myndina Vagabonds, frumraun búlgarska leikstjórans Doroteyu Droumevu, sem frumsýnd var á hátíðinni, en þar fer íslenski leikarinn Magnús Maríuson með eitt aðalhlutverka. Magnús hefur til að mynda áður farið með hlutverk í sjónvarpsþáttaröðunum Das Boot og The Liberator.