Um KMÍ
Á döfinni

26.4.2023

Íslensk stuttmynd keppir um gullpálma í Cannes

Stuttmyndin Fár eftir Gunni Martinsdóttur Schlüter er á meðal 11 verka sem keppa í stuttmyndaflokki alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í ár.

Í myndinni tekst einstaklingur á við aðstæður sem reyna á siðferði mannskepnunnar í aftengdum heimi við náttúruna. Gunnur leikstýrir myndinni, skrifar handrit hennar og fer að auki með aðalhlutverkið. Framleiðendur eru Sara Nassim og Rúnar Ingi Einarsson hjá framleiðslufyrirtækinu Norður.

Stuttmyndirnar 11 sem keppa um verðlaun á hátíðinni í ár voru valdar úr 4.288 innsendum myndum. Verðlaunahafi verður kynntur við lokaathöfn kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, 27. maí. Formaður dómnefndar er ungverski leikstjórinn Ildikó Enyedi.