Íslenskar heimildamyndir sýndar á alþjóðlegu heimildamyndahátíðunum CPH:DOX, Hot Docs og Visions du Réel
Fimm íslenskum heimildamyndum hefur verið boðin þátttaka á þremur virtum alþjóðlegum heimildamyndahátíðum. Það eru hátíðirnar Visions du Réel í Frakklandi, CPH:DOX í Kaupmannahöfn og Hot Docs í Toronto sem standa nú yfir í stafrænu formi.
CPH:DOX
Þriðji póllinn eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttir verður frumsýnd alþjóðlega í flokknum NORDIC:DOX AWARD þann 24. apríl á alþjóðlegu heimildamyndahátíðinni í Kaupmannahöfn (CPH:DOX). Myndin var sýnd hér á landi síðastliðið haust í kvikmyndahúsum og var hún opnunarmynd RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, árið 2020.
Þriðji póllinn er ljóðræn heimildamynd með söngvum sem fjallar um ferðalag Högna Egilssonar til Nepal, þar sem við hittum fílaprinsessuna Önnu Töru Edwards sem hefur efnt til vitundarvakningar um geðheilsu í Kathmandhu. Myndin kannar mörk draums og veruleika, listar og vitfirringar.
Lagið um hatrið eftir Önnu Hildi Hildibrandsdóttur verður sýnd á CPH:DOX í flokkunum Anarkist og Sound & Vision. Myndin hefur þegar verið valin inn á fjölda alþjóðlegra kvikmyndahátíða og var nýverið sýnd á RÚV.
Tvö hundruð milljón manns eru að horfa! Raunveruleiki sem blasti við íslensku Eurovisonförunum árið 2019 sem voru ákveðnir í að gera hina ópólitísku söngvakeppni pólitíska. Söngur um hatur kortleggur ferðalag hljómsveitarinnar Hatara er þeir reyna að breyta heiminum og sýnir hvernig ferðalagið breytir þeim.
Band, sem er frumraun Álfrúnar Örnólfsdóttur sem leikstjóra, tekur þátt í verk í vinnslu hluta CPH:FORUM sem er fjármögnunar- og samframleiðsluviðburður CPH:DOX. Band er meiksaga hljómsveitar sem á líklega ekki eftir að meika það og er í raun ekki hljómsveit.
Hot Docs
Hækkum rána eftir Guðjón Ragnarsson verður frumsýnd alþjóðlega í flokknum Changing Face of Europe á heimildamyndahátíðinni Hot Docs sem fer fram dagana 29. apríl til 9. maí. Hot Docs er leiðandi hátíð og stærst sinnar tegundar í N-Ameríku.
Heimildamyndin fjallar um réttindabaráttu 8-13 ára stúlkna sem vilja breyta viðmiðum í kvennakörfu á Íslandi og eru þjálfaðar af óvenjulegum þjálfara sem hækkar í sífellu rána. Myndin var fyrst sýnd í Sjónvarpi Símans Premium í byrjun febrúar og vakti mikið umtal.
Visions du Réel
Góði hirðirinn eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur verður frumsýnd alþjóðlega á heimildamyndahátíðinni Visions du Réel þann 23. apríl í flokknum International Medium Length & Short Film. Hátíðin er meðal elstu og virtustu heimildamyndahátíða í Evrópu og er nú haldin í 52. sinn. Myndin verður sýnd hérlendis í Bíó Paradís frá 29. apríl.
Á landi Þorbjörns Steingrímssonar við Ísafjarðardjúp eru hátt í 600 bílhræ. Góði hirðirinn veltir upp spurningum um manneskjuna, umhverfi og fagurfræði. Myndin er sería af lifandi póstkortum frá afskekktum stað sem sumir sjá sem ævintýraland á meðan aðrir býsnast yfir draslinu.
Frekari upplýsingar um íslenskar heimildamyndir má finna hér.
Frekari upplýsingar um íslenskar heimildamyndir í vinnslu má finna hér.
Sjá einnig: Íslenskar heimildamyndir á alþjóðlegum hátíðum