Um KMÍ
Á döfinni

5.11.2021

Íslenskar kvikmyndir á Tallinn Black Nights Film Festival - heimsfrumsýning á Skjálfta

Heimsfrumsýning á kvikmyndinni Skjálfti mun fara fram á Tallinn Black Nights Film Festival (PÖFF) sem fer fram dagana 12. - 28. nóvember í Tallinn, Eistlandi. Þar að auki verða kvikmyndirnar Birta og Dýrið sýndar á hátíðinni, ásamt stuttmyndinni Eggið. Hátíðin er lykilhátíð Eystrasaltslandanna og ein stærsta hátíðin í norðaustanverðri Evrópu. PÖFF sýnir á þriðja hundrað kvikmyndir víðsvegar að og yfir 80 þúsund gestir sækja hana hverju sinni.

Skjálfti trailer

Skjálfti, sem verður sýnd í flokknum Current Waves, er fyrsta leikna kvikmynd Tinnu Hrafnsdóttur í fullri lengd. Tinna leikstýrir og skrifar handritið að myndinni sem byggð er á skáldsögu Auðar Jónsdóttur. Minningar sem Sögu hafði tekist að bæla niður sem barn koma skyndilega upp á yfirborðið og neyða hana til að horfast í augu við sannleikann um sjálfa sig.

Myndin er framleidd af Hlín Jóhannesdóttur fyrir Ursus Parvus og með aðalhlutverk fara Aníta Briem, Edda Björgvinsdóttir og Jóhann Sigurðsson. 


Birta trailer

Birta verður sýnd í flokki barnamynda og keppir um ECFA verðlauninBirta fjallar um hina 11 ára kraftmiklu en auðtrúa Birtu. Hún tekur málin í sínar hendur með ævintýralegum hætti þegar hún heyrir móður sína segja í hálfkæringi að það verði engin jól vegna blankheita.

Birta er skrifuð af Helgu Arnardóttur og leikstýrð af Braga Þór Hinrikssyni. Þau eru jafnframt framleiðendur myndarinnar fyrir H.M.S. Productions. Auk Kristínar fara með aðalhlutverk Margrét Júlía Reynisdóttir, Salka Sól Eyfeld og Margrét Ákadóttir.  


Dýrið trailer

Dýrið verður sýnd í flokknum Discovery Showcase sem sýnir myndir sem tilnefndar eru til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í flokki European Discovery 2021 - Prix FIPRESCI. Verðlaunin eru veitt árlega til leikstjóra með sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd, en Dýrið er á meðal þeirra kvikmynda sem tilnefndar eru.

Dýrið fjallar um sauðfjárbændurnar Maríu og Ingvar sem búa í fögrum en afskekktum dal. Þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Vonin um nýja fjölskyldu færir þeim mikla hamingju um stund, hamingju sem verður þeim síðar að tortímingu.

Myndin er undir leikstjórn Valdimars Jóhannssonar og handrit er eftir Sjón og Valdimar. Framleiðendur myndarinnar eru Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim fyrir Go to Sheep.


Eggið trailer

Þá keppir Eggið eftir Hauk Björgvinsson í stuttmyndaflokki hátíðarinnar. Myndin segir frá Gunnari og Önnu sem búa í litlu samfélagi sem hverfist um að útrýma ástarsorg með því að allir fái úthlutað nýjum maka á 7 ára fresti í Ástarlottóinu. Líf án ástarsorgar virðist sem himnaríki á jörðu en dystópískur raunveruleikinn blasir við þegar Gunnar og Anna verða ástfanginn upp fyrir haus og standa frammi fyrir úthlutun á nýjum maka. 


Allar nánari upplýsingar um Tallinn Black Nights Film Festival má finna á heimasíðu hátíðarinnar.