Íslenskar myndir á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck
Fjöldi mynda eftir íslenskt kvikmyndagerðarfólk verður sýndur á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi, sem fer fram í 64. sinn dagana 2.-6. nóvember.
Kvikmyndirnar Berdreymi, eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, og Volaða land, eftir Hlyn Pálmason, verða sýndar á hátíðinni. Stuttmynd Hlyns Pálmasonar, Hreiður, verður sýnd í stuttmyndahluta hátíðarinnar og Dalía eftir Brúsa Ólason í barna- og ungmennahluta hennar. Myndirnar keppa allar um verðlaun á hátíðinni.
Í flokki leikinna sjónvarpsþáttaraða verða þættir úr Svörtu söndum sýndir. Einnig verður verkefnið Ekki hugsa 360°, um tónlist Ólafs Arnalds, sýnd í nýjum flokki hátíðarinnar sem nefnist Immersion 360°.
Einnig verða heimildamyndirnar Innocence, eftir Guy Davidi, og Fördom och stolthet, eftir Evu Beling, sýndar á hátíðinni, en myndirnar eru norrænar samframleiðslur með aðkomu frá Íslandi.
Á dögunum var tilkynnt að Friðrik Þór Friðriksson hljóti heiðursverðlaun á hátíðinni og verða fimm kvikmyndir eftir hann sýnda þar í ár af því tilefni. Það eru myndirnar Börn náttúrunnar, Englar alheimsins, Bíódagar, Mamma Gógó og á Köldum klaka.
Dagskrá Norrænna kvikmyndadaga í heild sinni má finna á vef hátíðarinnar .