Um KMÍ
Á döfinni
  • Photo: Olaf Malzahn und Wolf-Dietrich Turné

10.10.2023

Fjölbreytt íslensk kvikmyndaverk á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck

Norrænum kvikmyndadögum verður hleypt af stað í 65. sinn í Lübeck í Þýskalandi í byrjun nóvember. Hátíðin hefur lengi verið ein sú stærsta og mikilvægasta sem helguð er kvikmyndagerð Norðurlanda og í ár verður þar boðið upp á breitt úrval kvikmynda- og sjónvarpsverka frá Íslandi.

Tilverur, í leikstjórn Ninnu Pálmadóttur, verður sýnd í keppnisflokki kvikmynda á hátíðinni. Þrjár íslenskar stuttmyndir eru auk þess á dagskrá hátíðarinnar. Fár, í leikstjórn Gunnar Martinsdóttur Schlüter, og Feluleikur, í leikstjórn Margrétar Seemu Takyar, eru sýndar í Nordic Shorts hluta hátíðarinnar og stuttmynd Önnu Karínar Lárusdóttur, Sætur, er hluti af ungmennadagskrá hennar.

Sjónvarpsþáttaröðin Heima er best, í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur, verður heimsfrumsýnd á hátíðinni. Þá verður þáttaröð Hafsteins Gunnar Sigurðssonar, Afturelding, einnig sýnd í flokki leikinna sjónvarpsþáttaraða.

Til viðbótar er heimildamyndin Smoke Sauna Sisterhood eftir Önnu Hints sýnd í heimildamyndaflokki hátíðarinnar. Myndin er að hluta framleidd á Íslandi og hefur farið mikla sigurgöngu síðan hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Sundance fyrr á árinu.

Nordische Filmtage Lübeck stendur yfir frá 1.-5. nóvember 2023.