Um KMÍ
Á döfinni

24.9.2025

Íslenskt kvikmyndagerðarfólk vinnur til verðlauna á Nordisk Panorama

O (Hringur), stuttmynd Rúnars Rúnarssonar, var valin besta stuttmyndin á Nordisk Panorama 2025. Þá hlaut Hanna Björk Valsdóttir framleiðendaverðlaunin Nordic Documentary Producer Award. Tilkynnt var um verðlaunin við lokaathöfn hátíðarinnar í gær .

Í umsögn dómnefndar segir að mynd Rúnars hafi heillað strax frá upphafi og að myndin afhjúpi flókinn veruleika fíknar. Í aðalhlutverki er Ingvar E. Sigurðsson. Þetta eru 18. alþjóðlegu verðlaun myndarinnar.

Umsögn dómnefndarinnar var svohljóðandi:

„Verðlaunamyndin er knúin áfram af stórkostlegum leik og heillaði okkur strax frá upphafi með nærgöngulli kvikmyndatöku sem misnotar hvorki né dæmir brothætta aðalpersónuna. Myndin er margbrotnari en einföld uppbygging hennar gefur til kynna og hún afhjúpar það að fíkn er ekki eitthvað sem þú getur sigrast á með viljastyrkinn einan að vopni – heldur sé hún sjúkdómur sem kann að vera einfaldlega ólæknandi. Verðlaunin fara til Rúnars Rúnarssonar.“

Verðlaunaféð er 5.000 evrur. Þau eru kostuð af samtökum danskra kvikmyndaleikstjóra og samtökum sænskra kvikmyndaleikstjóra.

Hanna Björk hlýtur sem fyrr segir Nordic Documentary Producer Award, sem veitt eru framúrskarandi framleiðendum heimildamynda.

Umsögn dómnefndar:

„Þessi metnaðarfulli framleiðandi virkjar sköpunarmáttinn á sama tíma og hann styður við leikstjórana sem hann vinnur með. Við dáumst að langvarandi tryggð framleiðandans við listrænar og framsæknar heimildamyndir sem vekja alþjóðlega athygli. Það er aldrei auðvelt að gera heimildamyndir – og enn síður í heimalandi framleiðandans – en þessi staðfasta manneskja heldur áfram af hugrekki og listfengi. Verðlaunin fara til Hönnu Bjarkar Valsdóttur.“

Verðlaunaféð er 10.000 evrur. Þau eru kostuð af sambandi danskra kvikmyndaframleiðenda, sambandi norskra kvikmyndaframleiðenda – Virke, sambandi finnskra kvikmyndaframleiðenda (APFI), Filmproducenternas Rättighetsförening (FRF) og Félagi kvikmyndagerðarmanna (FK).

Nordisk Panorama er ein helsta hátíð sinnar tegundar á Norðurlöndum og sýnir eingöngu myndir eftir norræna kvikmyndagerðarmenn.