Jörðin undir fótum okkar hlýtur sérstaka viðurkenningu í Zürich
Jörðin undir fótum okkar, heimildamynd í leikstjórn Yrsu Roca Fannberg, hlaut sérstaka viðurkenningu á kvikmyndahátíðinni í Zürich í Sviss . Hátíðin fór fram 25. september til 10. október 2025.
Jörðin undir fótum okkar segir frá sólarlagi lífsins á hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík þar sem tíminn lýtur sínum eigin lögmálum. Í umsögn dómnefndar segir að myndin fái viðurkenninguna fyrir kvikmyndatöku sem einkennist af hluttekningu og rólega en áhrifamikla framsetningu á fegurðinni sem finnst á haustdögum lífs.
Myndin var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu heimildamyndahátíðinni CPH:Dox í vor og vann nýverið til verðlauna á DMZ International Documentary Film Festival, einni virtustu heimildamyndahátíð í Asíu. Hanna Björk Valsdóttir framleiðandi myndarinnar hlaut aðalverðlaun framleiðenda á Nordisk Panorama 2025.
Þetta er þriðja kvikmynd Yrsu Roca Fannberg (Salóme 2014, Síðasta haustið 2019).