Jörðin undir fótum okkar sýnd á RIFF
Jörðin undir fótum okkar, heimildamynd eftir Yrsu Roca Fannberg, verður Íslandsfrumsýnd á RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík (25. september - 5. október).
Myndin var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu heimildamyndahátíðinni CPH:Dox í vor og og hefur þegar verið valin til sýninga á Gimli International Film Festival, Dok.fest Münich, DMZ International Documentary Film Festival og Nordisk Panorama. Hún verður sýnd á RIFF 2025 að leikstjóranum viðstaddri en hún tekur þátt í samræðum að sýningu lokinni.
Í myndinni er fylgst með sólsetri lífsins á hjúkrunarheimili í Reykjavík, þar sem tíminn lýtur sínum eigin lögmálum. Leikstjórinn Yrsa hefur sjálf starfað á hjúkrunarheimilinu Grund til margra ára og brennur fyrir málefnum eldri borgara. Í gegnum árin hefur hún myndað náin tengsl við heimilismenn sem jafnframt eru viðfangsefni myndarinnar.
Sérstök sýning á myndinni fyrir heimilismenn og aðstandendur fer fram á Grund 3. október. Á hátíðinni er kvikmyndin ein af 8 keppnismyndum í flokknum Vitranir, eða New Visions, og fer einnig fram fyrir dómnefnd unga fólksins. Í kjölfar RIFF fer myndin í sýningar í Bíó Paradís.
Jörðin undir fótum okkar er framleidd af Akkeri films en þetta er í annað sinn sem framleiðslufyrirækið kemur að mynd leikstjórans. Hanna Björk Valsdóttir er framkvæmdastjóri Akkeri films og aðalframleiðandi myndarinnar. Um hljóðmyndina sér Björn Viktorsson.