Um KMÍ
Á döfinni

21.1.2025

Katla Sólnes valin í Sundance Screenwriters Lab

Katla Sólnes er á meðal 10 umsækjenda sem valdir eru til þátttöku í vinnusmiðju fyrir upprennandi handritshöfunda á Sundance-kvikmyndahátíðinni 2025. Mikill fjöldi sótti um þátttöku en um 3.380 umsóknir bárust.

Verkefni Kötlu er kvikmynd í fullri lengd sem nefnist Að temja eldinn. Myndin gerist á Íslandi, snemma á 8. áratugnum, og fjallar um spennu og hræringar sem myndast í hjónabandi þegar eiginmaðurinn, sem er jarðfræðiprófessor, tekur að sér metnaðarfullan starfsnema. Verkefnið hefur fengið handritsstyrki frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Katla útskrifaðist frá Columbia-háskóla í New York haustið 2024 með MFA-gráðu og starfar þar sem aðstoðarprófessor vorönn 2025. Fyrir handritið Að temja eldinn hlaut hún viðurkenningu Alfred P. Sloan-sjóðsins, sem veitt er handritum sem hafa vísindi að leiðarljósi. Lokaverkefni hennar frá Columbia var styrkt af Indian Paintbrush-sjóðnum.

Vinnusmiðjan fer fram 18.-22. janúar og er ætlað að veita upprennandi handritshöfundum tækifæri til að þróa fyrstu og aðra kvikmynd sína.