Kristín Erla Pétursdóttir valin norræn stjarna á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni BUFF
Kristín Erla Pétursdóttir hefur verið valin sem norræn stjarna (Nordic star) á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni BUFF fyrir aðalhlutverk sitt í kvikmyndinni Birtu. Ár hvert velur hátíðin þrjá unga leikara sem skara fram úr í hlutverkum sínum, en Birta verður sýnd á hátíðinni. Hátíðin mun fara fram í Malmö, Svíþjóð dagana 19. - 25. mars.
Kristín Erla hefur áður unnið til verðlauna fyrir leik sinn í Birtu, en hún vann til DIAMANT verðlaunanna sem besta unga leikkonan (Best Child Actor) á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni SCHLINGEL sem fór fram í október á síðasta ári.
Birta fjallar um hina 11 ára kraftmiklu en auðtrúa Birtu. Hún tekur málin í sínar hendur með ævintýralegum hætti þegar hún heyrir móður sína segja í hálfkæringi að það verði engin jól vegna blankheita.
Birta er skrifuð af Helgu Arnardóttur og leikstýrð af Braga Þór Hinrikssyni. Þau eru jafnframt framleiðendur myndarinnar fyrir H.M.S. Productions. Auk Kristínar fara með aðalhlutverk Margrét Júlía Reynisdóttir, Salka Sól Eyfeld og Margrét Ákadóttir.