Um KMÍ
Á döfinni

3.8.2023

Kvikmynd Ninnu Pálmadóttur heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto

Kvikmyndin Tilverur, í leikstjórn Ninnu Pálmadóttur, verður heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto. Hátíðin, sem er ein sú stærsta og virtasta í Norður-Ameríku, fer fram 7. – 17. september.

Tilverur er á meðal 26 mynda sem sýndar eru í Discovery-hluta hátíðarinnar. Þetta er fyrsta kvikmynd Ninnu Pálmadóttur í fullri lengd. Hún segir frá manni sem flyst til borgarinnar tilneyddur þegar ríkið tekur jörð hans yfir til virkjunarframkvæmda. Í borginni kynnist hann blaðbera, hinum 10 ára gamla Ara, sem markar upphafið að umbreytingum á lífi beggja. Handrit myndarinnar er eftir Rúnar Rúnarsson. Stuttmynd Ninnu, Blaðberi, var sýnd á hátíðinni árið 2019.

Myndin er framleidd af Lilju Ósk Snorradóttur og Hlín Jóhannesdóttur hjá Pegasus. Meðframleiðendur eru Jakub Viktorian og Sarah Chazelle hjá slóvakíska framleiðslufyrirtækinu Nutprodukcia. Alþjóðleg sala og dreifing er í höndum Party Film Sales.

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Toronto í Kanada, eða TIFF, er ein fjölsóttasta kvikmyndahátíð heims en um hálf milljón gesta sækir hana að jafnaði í hverjum septembermánuði.