Um KMÍ
Á döfinni

21.5.2021

Kvikmyndaarfur Íslendinga á nýrri streymisveitu

Í Kvikmyndastefnu til ársins 2030 er gert ráð fyrir að unnið verði að stofnun streymisveitu með íslensku myndefni. Undirbúningsvinna slíkrar streymisveitu er hafin á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasafns Íslands og mun starfsfólk þess sinna þessari vinnu, en einnig hefur Ásgrímur Sverrisson verið ráðinn tímabundið til verkefnisins.

Að baki liggur sú grundvallarhugmynd að auðvelda og einfalda aðgengi að íslenskum kvikmyndaarfi á tímum stafrænnar dreifingar myndefnis, en ljóst er að stór hluti íslenskra kvikmynda í gegnum tíðina eru lítt eða ekki aðgengilegar í samtímanum. Því er gert ráð fyrir að veitan gefi almenningi, bæði á Íslandi og erlendis, aðgang að íslenskum bíómyndum, þáttaröðum, heimildamyndum, stuttmyndum og öðru efni til framtíðar.

Efnisframboð slíkrar streymisveitu mun að sjálfsögðu vera háð áhuga og samþykki rétthafa íslenskra kvikmynda í hverju tilviki. Ætlunin er að vinnan fari fram í góðu samstarfi við þá aðila. Hugmyndin er að streymisveitan veiti aðgang að íslenskum kvikmyndaarfi þegar myndir eru ekki fáanlegar annarsstaðar. Henni er ekki ætlað að vera í samkeppni við aðra aðila sem kunna að bjóða uppá íslenskt efni hverju sinni.

Nú í upphafi undirbúningsvinnu er gengið út frá eftirfarandi forsendum (þær gætu mögulega breyst eftir því sem þróunarvinnu og viðræðum við rétthafa vindur fram):

  • Rétthafi stýrir því hvenær tiltekið verk fer inná streymisveituna.
  • Miðað er við að streymisveitan verði í greiðslugáttarformi, það er notandi greiðir fyrir sýningu einstakra verka (Pay-Per-View).
  • Fyrst um sinn er miðað við að inná streymisveituna fari myndefni sem til er í viðundandi gæðum.
  • Streymisveitan verður tengd Kvikmyndavefnum, sem rekin er á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, þannig að hlekkir verða við síður einstakra verka á Kvikmyndavefnum yfir á streymisveituna.
  • Vinna varðandi tæknilegar lausnir er í gangi og verða þær hugmyndir nánar kynntar innan tíðar.

Viðræður við rétthafa eru að hefjast. Þar munu þeir aðilar geta lagt fram sín sjónarmið varðandi útfærslu streymisveitunnar og málefna því tengdu.

Það er mikið hagsmunamál bæði almennings og rétthafa/kvikmyndahöfunda að aðgengi að íslenskum kvikmyndaarfi sé sem einfaldastur og aðgengilegastur. Markmiðið er að fyrirhuguð streymisveita verði stór liður í að gera það að veruleika.