Kvikmyndafræðinemar Háskóla Íslands taka þátt í vali Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunanna
Kvikmyndafræði Háskóla Íslands er á meðal 26 háskóla í jafnmörgum löndum sem taka þátt í vali á vinningshafa til Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunanna (EUFA). Um er að ræða verkefni á vegum Evrópsku Kvikmyndaakademíunnar og Kvikmyndahátíðarinnar í Hamborg, í samstarfi við Evrópsku kvikmyndaverðlaunin.
Af þeim 53 kvikmyndum og 15 heimildamyndum sem eru í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin hafa fimm myndir verið tilnefndar til EUFA verðlaunanna. Í kjölfarið verða myndirnar sýndar og ræddar þar sem hver háskóli mun komast að niðurstöðu um bestu myndina að þeirra mati. Nemandi frá hverjum skóla ferðast svo til Hamborgar og tekur þátt í þriggja daga ráðstefnu þar sem komist er að endanlegri niðurstöðu. Tilkynnt verður um vinningsmyndina þann 8. desember næstkomandi og verðlaunaafhendingin fer fram þann 11. desember sem hluti af Evrópsku kvikmyndaverðlaunum í Berlín.
Myndirnar sem tilnefndar eru til verðlaunanna í ár eru Apples eftir Christos Nikou, Flee eftir Jonas Poher Rasmussen, Great Freedom eftir Sebastian Meise, Happening eftir Audrey Diwan og Quo Vadis, Aida? eftir Jasmila Žbanić.
Árið 2017 vann hin margverðlaunaða kvikmynd Guðmunds Arnars Guðmundssonar, Hjartasteinn, til EUFA verðlaunanna og var það annað árið sem verðlaunin voru veitt. Í fyrra vann svissneska kvikmyndin Saudi Runaway eftir Susanne Regina Meures til verðlaunanna. Allar nánari upplýsingar um Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunin má finna hér.