Um KMÍ
Á döfinni

26.10.2023

Kvikmyndaklúbbur Evrópu stofnaður

Stofnun Kvikmyndaklúbbs Evrópu verður fagnað í fleiri en 25 Evrópuríkjum helgina 3.-5. nóvember.

Evrópska kvikmyndaakademían stendur að baki klúbbnum, sem er ætlaður ungmennum á aldrinum 12-19 ára. Klúbburinn er vettvangur, sem breiðir úr sér í Evrópu og á netinu, þar sem ungmenni geta komið saman, horft á evrópskar kvikmyndir, rætt og jafnvel deilt eigin kvikmyndaverkum með öðrum. Ungt fólk og sérfræðingar í kvikmyndagerð koma að því að setja saman efnisskrána, sem samanstendur af kvikmyndum sem kveikja áhuga komandi kynslóða á evrópskri kvikmyndagerð.

Á Íslandi verður hægt að taka þátt í stofnun Kvikmyndaklúbbs Evrópu 5. nóvember í Bíó Paradís, þar sem kvikmyndin Allt er í heiminum hverfult (Everything Will Change), í leikstjórn Martins Persiels, verður sýnd.

Myndin gerist í framtíðinni og segir frá þremur ungum hugsjónamönnum sem leggja af stað í leiðangur í von um að finna svarið við því hvers vegna náttúrufegurð jarðarinnar sé horfin.

Oddný Sen stjórnar umræðum eftir myndina en einnig verður viðtal við leikstjóra hennar, Marten Persiel, og leikara í gegnum fjarfundarbúnað að lokinni sýningu.