Um KMÍ
Á döfinni

2.12.2022

Kvikmyndalist í sátt við framtíðina

Kvikmyndamiðstöð Íslands, í samvinnu við Íslandsstofu og Rannís býður til málþings um sjálfbæra kvikmyndagerð í Sykursal Grósku, fimmtudaginn, 8. desember. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála-, viðskipta- og menningarmála verður viðstödd og ávarpar málþingið.

Stór jafnt sem smá kvikmyndaverkefni krefjast ýmissar þjónustu sem tengist kvikmyndum beint og óbeint, eins og gisting, veitingaþjónusta og flutningar á fólki og tækjum. Framleiðendur kvikmynda leita nú í auknum mæli eftir viðskiptum við umhverfisvæn fyrirtæki til að ná markmiðum sínum um sjálfbæra framleiðslu. Hér gefst því gott tækifæri til að kynna sér það sem helst brennur á kvikmyndagerðarfólki í þessum efnum.

Útlit er fyrir að eftirspurn eftir sérfræðingum og þjónustu á sviði áætlanagerðar og úrvinnslu gagna um kolefnislosun, og aðra þætti er snúa að sjálfbærni í framleiðslu og dreifingu kvikmynda, muni aukast mjög á næstu árum, og að fjöldi áhugaverðra starfa skapast á þessu sviði. 

Meðal þeirra sem koma fram á málþinginu er Mari-Jo Winkler, framleiðandi True Detective og frumkvöðull á sviði sjálfbærni í kvikmyndagerð. Upptökur á þáttaröðinni standa yfir um þessar mundir og er þetta eitt dýrasta verkefni sem unnið hefur verið á Íslandi. Aðstandendur verksins hafa sett sér skýr markmið um sjálfbærni í öllum þáttum framleiðslunnar, og ekki síst að tryggja að kaup á vörum og þjónustu, uppfylli ríkar kröfur þeirra um sjálfbærni.

Dagskrá

  • 10.00 Green Film kynning
  • 10.30 Umhverfisáhrif stafrænnar tækni í kvikmyndagerð.
    Morgane Baudin, framleiðandi og sérfræðingur í sjálfbærni.
  • 11.15 Dæmisaga – Hvernig ég byrjaði ég að huga að sjálfbærni á tökustað.
    Giovanni Pompili, framleiðandi og kennslustjóri hjá Green Film Lab
  • 12.00 Hádegisverður.
  • 13:00 Ávarp, Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra.
  • 13.10 Samtal við Mari-Jo Winkler, framleiðandi True Detective.
    Louise Marie Smith og Giovanni Pompili stýra umræðum.
  • 14.00 Næstu skref – Sjálfbærnimarkmið og aðgerðir í íslenskri kvikmyndagerð.
    Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
  • 14.30 Græn kvikmyndagerð – Hvernig virkar hún á tökustað?
    Louise Marie Smith, sérfræðingur á sviði sjálfbærni í kvikmyndagerð og stofnandi Neptune Environmental Solutions.

Þátttaka er ókeypis en nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku fyrir lok dags 5. desember, þar sem sætaframboð er takmarkað. Hægt er að velja um skráningu fyrir allan daginn eða frá kl. 13.00.

Ljósmynd: Lilja Jóns. Frá tökum á kvikmynndinni Dýrið.